Fara í efni
Fréttir

Norðurlandsmeistari í skák í áttunda sinn

Rúnar Sigurpálsson er Norðurlandsmeistari í áttunda sinn.
Rúnar Sigurpálsson er Norðurlandsmeistari í áttunda sinn.

Rúnar Sigurpálsson varð á sunnudaginn Norðurlandsmeistari í skák í áttunda skipti. Skákþing Norðlendinga fór þá fram, hið 86. í röðinni, en það hefur verið haldið óslitið frá árinu 1935.

Skipulagning mótsins í ár reyndist erfiðari en oft áður vegna kórónuveirufaraldursins. Brugðið var á það ráð að halda mótið á skákþjóninum Tornelo. Hann hefur reynst skipuleggjendum afar vel undanfarið því reglurnar þar eru líkari borðskák en hjá öðrum og þar er auðvelt að tengja menn saman í mynd með aðstoð Zoom. Upplifunin verður því eins nálægt hefðbundnu skákmóti og mögulegt er.

Keppendur voru 23 að þessu sinni, bæði núverandi og fyrrverandi Norðlendingar, eins og það er orðað á vef Skáksambands Íslands, sem og gestir sem gripu tækifærið til að taka þátt í þessu sögufræga móti, sem var aðgengilegra en oft áður.

Tefldar voru 9 umferðir með tímamörkunum 8 mínútur að viðbættum 2 sekúndum á leik.

Mótið í ár var afar vel skipað og var hart barist um hvern vinning. Akureyringarnir Rúnar Sigurpálsson og Andri Freyr Björgvinsson reyndust allra manna aðsópsmestir og mátti vart á milli sjá hvor þeirra stæði upp sigurvegari. Báðir enduðu þeir með 7,5 vinninga en Rúnar hafði betur eftir stigaútreikning og fagnaði því sínum áttunda Norðurlandsmeistaratitli!

Næstir á eftir þeim Rúnari og Andra voru Þorsteinn Þorsteinsson, Arnar Þorsteinsson og Tómas Veigar Sigurðarson, með 6 vinninga. Tómas var sá eini þeirra með lögheimili á Norðurlandi og var því í þriðja sæti.