Fara í efni
Fréttir

Skák: Sveit SA tekur þátt í EM taflfélaga

Frá liðsstjórafundi áður en mótið hófst. Annar frá vinstri er Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar og einn liðsmanna keppnissveitar félagsins. Mynd: ecc20205.com.

Í gær hófst keppni á Evrópumeistaramóti taflfélaga en þar tekur sveit frá Skákfélagi Akureyrar þátt, ásamt nokkrum öðrum íslenskum sveitum. Mótið er haldið á Ródos í Grikklandi og lýkur þann 25. október.

Átta skákmenn skipa lið Skákfélags Akureyrar (SA) á þessu móti en sex þeirra tefla í hverri umferð. Alls taka 102 sveitir þátt í opnum flokki og er sveit SA númer 58 í styrkleikaröðinni. Auk SA taka fjórar aðrar íslenskar sveitir þátt í mótinu í opnum flokki, auk einnar kvennasveitar þar sem 20 lið etja kappi.

Andstæðingar SA í fyrstu umferðinni voru eitt af sterkustu liðum mótsins, Rishon Le Zion #1. Harðsnúið lið með fimm stórmeistara innanborðs, meðal annars Boris Gelfand sem er einn sterkasti skákmaður heims. Akureyringar þurftu að sætta sig við 6:0 tap en voru þó óheppnir að ná ekki að krækja í punkt.

Í annarri umferðinni í dag mætir SA enskri sveit, sem er nr. 85 í styrkleikaröðinni, þannig að möguleikar SA á að rétta sinn hlut verða að teljast allgóðir enda okkar menn stigahærri á öllum borðum.

Hér má fylgjast með gangi mála í mótinu.