Skákfélagið endaði í 71. sæti á EM taflfélaga
 
											Um síðustu helgi lauk Evrópumeistaramóti taflfélaga, sem haldið var í Grikklandi. Skákfélag Akureyrar (SA) var eitt af 102 liðum sem tók þátt í keppninni í opnum flokki og lauk leik í 71. sæti. Jóhann Hjartarson náði bestum árangri í sveit SA og raunar bestum árangri allra íslensku skákmannanna á mótinu. Alls tóku 6 íslensk lið þátt í mótinu, fimm í opnum flokki og eitt í kvennaflokki.
Tefldar voru 7 umferðir og hver sveit var skipuð 6 mönnum í hverri umferð. Tvö stig eru gefin fyrir sigur í hverri viðureign og eitt stig fæst fyrir jafntefli. SA sigraði í þremur viðureignum og tapaði fjórum og fékk því sex stig. Ásamt SA voru allmörg lið með 6 stig í sætum 61-75 en 71. sætið kom í hlut Akureyringa eftir stigaútreikning.
Jóhann Hjartarson stórmeistari tefldi á 1. borði í sveit SA og fékk 4,5 vinninga úr þeim 6 skákum sem hann tefldi. Stigaárangur hans var sá besti af öllum þeim 38 keppendum sem tefldu í íslensku liðunum í mótinu. Áskell Örn Kárason og Bogi Pálsson máttu líka vel við una en þeir nældu sér í 3,5 vinninga úr 7 skákum.
Í innbyrðis keppni íslensku liðanna var það Taflfélag Reykjavíkur sem náði bestum árangri. Sveit þeirra hlaut alls 8 stig og hafnaði í 35. sæti mótsins.