Jón Kristinn varð Norðurlandsmeistari

Skákþing Norðlendinga fór fram á Akureyri um síðustu helgi í 91. sinn. Þetta gamalgróna skákmót hefur verið haldið árlega óslitið frá árinu 1935 og ekkert skákmót á Íslandi á sér jafnlanga samfellda sögu. Jón Kristinn Þorgeirsson bar sigur úr býtum á mótinu og hlaut nafnbótina Skákmeistari Norðlendinga. Samhliða mótinu fór fram Hraðskákmót Norðlendinga og þar varð Símon Þórhallsson hlutskarpastur.
Tefldar voru 11 umferðir með atskákarfyrirkomulagi og tóku 24 skákmenn þátt í mótinu. Mótið er opið öllum skákmönnum en einungis sá sem á lögheimili á Norðurlandi getur hampað Norðurlandsmeistaratitlinum. Jón Kristinn náði strax forystunni og lét hana aldrei af hendi. Vann 9 skákir, tapaði einni og gerði eitt jafntefli og varð einn efstur með 9,5 vinninga. Stigahæsti skákmaður mótsins, sunnanmaðurinn og alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson, varð annar með 9 vinninga og meistarinn frá í fyrra, Símon Þórhallsson, varð að gera sér bronsið að góðu með 7,5 vinninga. Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar, hafnaði í fjórða sæti með 7 vinninga.
Verðlaunahafar á mótinu. Í aftari röð er unglingaflokkurinn, frá vinstri: Sigþór Árni Sigurgeirsson, Nökkvi Már Valsson og Valur Darri Ásgrímsson (sem einnig fékk verðlaun fyrir bestan árangur miðað við stig).
Fremri röð frá vinstri: Helgi Pétur Gunnarsson (bestur árangur undir 1800 stigum), Símon Þórhallsson (hraðskákmeistari og þriðja sæti á Skákþinginu), Jón Kristinn Norðurlandsmeistari (og þriðja sæti í hraðskákinni) og Gauti Páll Jónsson (annað sæti í hraðskákinni). Silfurhafinn Davíð Kjartansson hafði þurft að bregða sér frá þegar myndin var tekin.
Verðlaun voru veitt fyrir fjögur efstu sætin og einnig fékk Helgi Pétur Gunnarsson verðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 1800 stigum og Valur Darri Ásgrímsson fékk verðlaun fyrir bestan árangur miðað við skákstig. Hann hækkar um 57,6 stig fyrir árangur sinn í þessu móti.
Hraðskákmót Norðlendinga var haldið á laugardagskvöldinu og þar tóku 15 skákmenn þátt. Símon Þórhallsson átti einnig titil að verja á þeim vettvangi og sú titilvörn tókst hjá honum. Hann hlaut 7,5 vinninga af 9 mögulegum. Annar varð Gauti Páll Jónsson með 7 vinninga og Jón Kristinn varð þriðji með 6 vinninga.
Skákfélag Akureyrar sá um framkvæmd mótsins, sem var haldið við mjög góðar aðstæður í Brekkuskóla. Heildarúrslit mótsins má sjá á vef félagsins. Næsta mót á vegum skákfélagsins hefst í kvöld, þegar tvær fyrstu umferðirnar í Haustmóti SA verða tefldar, en Haustmótið er jafnframt meistaramót félagsins.