Fara í efni
Pistlar

Meistari málsins

Í dag eru 100 ár frá fæðingu Gísla Jónssonar, menntaskólakennara. Gísli fæddist á Hofi í Svarfaðardal 14. september 1925 og lést á Akureyri í nóvember 2001.

Ofanritaður skrifaði lengi vikulega pistla – Viðhorf – í Morgunblaðið ásamt fleiri blaðamönnum þar á bæ. Eftirfarandi pistill birtist á útfarardegi Gísla, 7. desember 2001 og er birtur hér á ný í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Gísla Jónssonar. Þess má geta að meðfylgjandi myndir hafa ekki birst opinberlega áður.

_ _ _

Ríkidæmi fólks er iðulega mælt í peningum eða öðrum veraldlegum verðmætum. Þegar á reynir skiptir allt heimsins prjál hins vegar engu máli og mannskepnan gerir sér (vonandi) grein fyrir því að vinátta eða kunningsskapur við gott fólk er dýrmætara en fé á bankabók.

Sá auður glatast að minnsta kosti ekki þótt krónan falli eða hlutabréfakastalinn hrynji.

Margir mótast fyrir lífstíð þau ár sem setið er á skólabekk og eru menntaskólaárin ekki síst mikilvægt skref á þeirri þroskaleið sem lífsgangan er. Auk þess að nema gagnleg fræði kynnist menntskælingurinn gjarnan ýmsum lífsins lystisemdum. Öðlast reynslu sem hann býr lengi að. Þroskast. Þá er nauðsynlegt að viðkomandi umgangist fólk sem vill honum vel. Fólk sem ber hag hans fyrir brjósti, fólk sem er ekki sama.

Gísli Jónsson í turni Hóladómkirkju, á Hólum í Hjaltadal, vorið 1982. Þar var hann á ferð með nemendum sínum í máladeild Menntaskólans á Akureyri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Það er dýrmætt að kynnast þeim sem sýna öðrum, ekki síst hinum yngri og óreyndari, hlýhug, traust og vinsemd. Að ég tali nú ekki um þau forréttindi að fá að læra af slíkum mannvinum um langa hríð eða skamma, hvort sem er í skóla eða á vinnustað. Hvort tveggja þekki ég af eigin raun, eins óverðskuldað og það nú er.

Virðing – fyrir fólki, umhverfi sínu og viðfangsefnum – er mikilvæg dyggð. Lítillæti, heiðarleiki og gott skopskyn sömuleiðis.

Umsjónarkennari okkar í fimmta og sjötta bekk máladeildar Menntaskólans á Akureyri við upphaf níunda áratugarins hafði allt þetta til að bera. Hann þótti vissulega sérkennilegur á stundum, var eflaust nokkuð sérvitur, en hnyttinn maður og elskulegur, sem talaði og skrifaði af mikilli íþrótt. Hann var viðkvæmur og enginn kom ólesinn í tíma nema af óviðráðanlegum orsökum, vegna þess að það olli kennaranum hugarangri. Og við stuðluðum ekki að slíku; enginn leikur sér að því að fá samviskubit.

Hann var líka vinur okkar.

Það var gaman að vinna fyrir hann og með honum.

Þessi meistari málsins, Gísli Jónsson, er látinn og verður jarðsunginn á Akureyri í dag.

Gísli sá um þáttinn Íslenskt mál í Morgunblaðinu frá 1979 til dauðadags og þegar þúsundasti þátturinn birtist vorið 1999 skráði ofanritaður samtal við hann sem birtist í blaðinu. Það hófst með einkennandi tilvitnun í viðmælandann: „Við skulum hafa þetta lítið og látlaust.“

Höfundur þessa pistils skrifaði samtal við Gísla Jónsson í apríl 1999, í tilefni 1000. þáttar hans um Íslensk mál í Morgunblaðinu. 

Gísli kenndi íslensku við MA í hálfan fjórða áratug og var mikils metinn sem fræðimaður á sviði þeirrar arfleifðar sem tungumálið er. Auk þess sinnti hann stjórnmálum lengi og eftir Gísla liggur býsn ritsmíða um ýmis málefni.

Hann var margfróður og hagyrðingur góður.

Sannarlega athyglisverður maður og forvitnilegur. Þrátt fyrir það vildi Gísli alls ekki tala um sjálfan sig, en féllst á að ræða um þættina í blaðinu og tungumálið: „Við skulum hafa þetta lítið og látlaust.“

Gísli taldi eðlilegt að málið breyttist, en sagði snemma hafa komið í ljós að mönnum fyndist hann fullumburðarlyndur hvað það varðar. Nefndi sem dæmi um breytingar á málinu ýmis orð sem komist hafa í tísku en horfið aftur og því ekki gert neitt mein. „Menn sögðu fyrir nokkrum áratugum glás af einhverju, gomma af einhverju, gras af seðlum og svona, en það er held ég að hverfa aftur. Þetta gerir ekkert til. Þetta er bara eins og snjóskafl sem bráðnar með vorinu.“

Gísli var mikill áhugamaður um knattspyrnu og dyggur stuðningsmaður Knattspyrnufélags Akureyrar. Sagði mér reyndar fyrir nokkrum árum að hann væri hættur að fara á völlinn, en hann fylgdist vel með og kættist í haust þegar Akureyrarliðin Þór og KA komust bæði upp í efstu deild.

Gísli Jónsson slakar á við sundlaugarbakkann í Varmahlíð vorið 1982. Við hlið Gísla er Erlingur Kristjánsson, einn nemenda hans í 6. bekk máladeildar og einn knattspyrnudrengjanna í KA sem Gísli samdi um limrurnar skemmtilegu hér að neðan. Myndin er tekin í ferð Gísla með nemendur sína heim að Hólum í Hjaltadal. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þegar félagið hans sigraði í næstefstu deild í knattspyrnu haustið 1980 og setti stigamet hélt Gísli eftirminnilegt ávarp á sigurhátíð KA í Sjálfstæðishúsinu. Þar rak ég, Þórsarinn, inn nefið og gleymi aldrei þegar kennarinn og limruvinurinn Gísli fór með hana þessa, frumsamda:

Það var knattspyrnulið sem hét KA.
Það keppti af festu og þráa,
og í órofa heild,
kvaddi öfuga deild.
Þökk sé Willoughby, kappanum knáa.

Skotinn Alex Willoughby þjálfaði KA-menn og til að hann skildi hvað um væri að vera hafði Gísli snarað limrunni á ensku:

There was a soccer team north by the Sea,
which in the first division wished to be.
The struggle was tough,
but they did well enough.
Thanks for brilliant work, Willoughby.

 

Gísli Jónsson og nemendur í 6. bekk máladeildar Menntaskólans á Akureyrar – verðandi stúdentar – í turni Hóladómkirkju, á Hólum í Hjaltadal vorið 1982. Sumir nemenda bekkjarins sjást ekki þarna, m.a. sá sem tók myndina! Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Gísli viðraði annað slagið skoðanir sínar í aðsendum greinum hér í Morgunblaðinu, hin síðari ár gjarnan með Sigurði Davíðssyni kennara, en þeir deildu herbergi á Amtsbókasafninu á Akureyri þar sem þeir grúskuðu. Kynning á þeim kumpánum var mjög í anda Gísla, jafnan þannig: Höfundar hafa fengist við kennslu. Hafa fengist við!

Það voru forréttindi að sitja í kennslustundum hjá Gísla Jónssyni. Fyrir ungt fólk sem veit ekki hvað það á að taka sér fyrir hendur eftir menntaskóla var ekki ónýtt að njóta nærveru meistarans og fráleitt dró það úr áhuga sumra á að hafa lifibrauð sitt af því að raða saman orðum á íslensku.

Okkur þótti vænt um hann og ég þykist vita að aðrir nemendur Gísla Jónssonar hafi sömu sögu að segja.

Ef minnið svíkur mig ekki söfnuðu stúdentar úr máladeild MA vorið 1982 ekki miklum veraldlegum auði meðan á skólagöngunni stóð, en öll hurfum við engu að síður rík á braut út í lífið.

Skapti Hallgrímsson er ritstjóri Akureyri.net

Sveitasæla

Jóhann Árelíuz skrifar
14. september 2025 | kl. 06:00

Ekki ganga af göflunum

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
13. september 2025 | kl. 06:00

Svartþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. september 2025 | kl. 09:15

Fífilgerði, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
09. september 2025 | kl. 06:00

Rabarbari

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. september 2025 | kl. 11:30

Tvístígandi

Jóhann Árelíuz skrifar
07. september 2025 | kl. 06:00