Fara í efni
Umræðan

Matthías Jochumsson

Í dag eru 100 ár liðin frá dauða Matthíasar Jochumssonar. Hann er fæddur að Skógum í Þorskafirði á Marteinsmessu 11. nóvember 1835, vann sem verslunarþjónn í Flatey en dvaldist veturinn 1856 til 1857 í Kaupmannahöfn og nam þar verslunarfræði, en lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1863 og prófi úr Prestaskólanum 1865. Árið eftir varð hann prestur til Kjalarnesþinga og bjó að Móum á Kjalarnesi, en fékk lausn frá prestskap 1873, dvaldist í Edinborg og Lundúnum veturinn eftir. Matthías var ritstjóri Þjóðólfs til 1880, er hann fékk Odda á Rangárvöllum en varð prestur á Akureyri 1886 og lifði þar til dauðadags og skildi þar eftir sig spor sem er ekki fennt í að fullu. Matthías var þríkvæntur. Þriðja kona hans var Guðrún Runólfsdóttir, sem var 30 árum yngri en hann. Eignuðust þau níu börn sem upp komust.
 
Matthías átti oft erfitt um ævina allt frá bernskudögum fram á elliár, barðist við þunglyndi og efasemdir í trúmálum, eins og víða kemur fram í kvæðum hans, og hann var óvæginn í dómum bæði í ræðu og riti, sem hann mátti gjalda fyrir. Í minningabók sinni „Sögukaflar af sjálfum mér“, sem hann ritaði á efri árum, þar sem hann segist aldrei hafa kynnst trúuðum presti á Íslandi. Lesa má frekar um líf og störf Matthíasar Jochumssonar í vandaðri ævisögu Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur „Upp á Sigurhæðir“, sem út kom 2006.
Mikill fjöldi kvæða og sálma liggur eftir Matthías Jochumsson, þar á meðal lofsöngurinn „Ó, Guð vors lands“. Fyrsta erindið orti hann í Edinborg í nóvember 1873, er hann dvaldist hjá vini sínum Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi er samdi lag við sönginn vorið 1874. Síðari versin tvö eru ort í Lundúnum veturinn 1873-1874. Efni lofsöngsins er sótt í síðara almenna bréf Péturs postula þar sem segir: „En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.“ Orð Péturs eru hins vegar endurómur af orðum í 90. sálmi Davíðs: „Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær þegar hann er liðinn, já, sem ein næturvaka.“
 
Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor segir í óprentuðum fyrirlestri, að „ekkert íslenskt skáld hafi í sama mæli og Matthías í skáldskap sínum spennt yfir allar íslenskra bókmenntir og íslenskt mál frá upphafi vega til sinna daga, sótt sér þaðan slíka lífsnæringu frá öllum tímum og aðlagað sjálfum sér jafnmargbreytilega aðdrætti frá 1000 ára bókmenntaferli, svo að allt rúmast innan endimarka hans eigin skáldskapar, svo vítt var landnám listar hans og slíkt stórveldi var persónuleiki þessa manns“. Þótt orð prófessorsins séu nokkuð upphafin, lýsa þau stöðu Matthíasar í íslenskum bókmennum á síðustu öld. Hann var afkastamikið ljóðskáld, leikritahöfundur, blaðamaður og þýðandi og það sem einkenndi ekki síst skáldskap hans er andagift – hann „orti eins og andinn blés honum í brjóst hverju sinni og lá ekki yfir kvæðum sínum að slípa þau og fægja“, eins og Páll Valsson segir í Íslenskri bókmenntasögu.
 
Í jólaræðu sem Matthías flutti aldraður á Sjúkrahúsinu á Akureyri vitnar hann í kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:
 
Svo rís um aldur árið hvurt um sig,
Eilífðar lítið smáblóm í skini hreinu.
Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,
Því tíminn vill ei tengja sig við mig.
 
Jónas Hallgrímsson og Matthías Jochumsson áttu margt sameiginlegt, fágæta ljóðgerð, trúarbaráttu og þunglyndi sem Jónas kallar „bringsmalaskottu“ og er trúarbarátta og þunglyndi þeirra iðulega rót að skáldskap þeirra.
Í Sálmabók íslensku kirkjunnar frá 2001 eru 53 sálmar eftir Matthías Jochumsson. Þar á meðal er hinn hrífandi sálmur eða trúarljóð „Faðir gjör mig lítið ljós“:
 
Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
um lífs míns stutta skeið,
til hjálpar hverjum hal og drós,
sem hefur villst af leið.
 
Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt,
sem brosir öllum mót
og kvíðalaust við kalt og hlýtt
er kyrrt á sinni rót.
 
Ó, faðir, gjör mig ljúflingslag,
sem lífgar hug og sál
og vekur sól og sumardag,
en svæfir storm og bál.
 
Ó, faðir, gjör mig styrkan staf
að styðja hvern sem þarf,
uns allt það pund, sem Guð mér gaf,
ég gef sem bróðurarf.
 
Ó, faðir, gjör mig sigursálm,
eitt signað trúarlag,
sem afli blæs í brotinn hálm
og breytir nótt í dag.
 
Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15