Fara í efni
Íþróttir

Magnea gerði markið í fyrsta kvennaleiknum

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXX

Fyrsti knattspyrnuleikur kvenna á Akureyri fór fram 25. júlí árið 1975. Þór hafði þá skömmu áður riðið á vaðið og boðið upp á æfingar fyrir stúlkur og í þessum fyrsta leik var andstæðingurinn lið Keflavíkur.

Liðin mættust á malarvelli Þórs á félagssvæðinu í Glerárhverfi. Fyrsti grasvöllur félagsins var ekki tekinn í notkun fyrr en árið 1980, Akureyrarvöllur var eini alvöru grasvöllur bæjarins á þessum tíma og inn á það góða teppi fékk ekki hver sem er að stíga.

Þór sigraði Keflavík 1:0 í umræddum leik árið 1975. Eftir mikið grúsk hefur loks tekist að grafa upp hver gerði þetta sögulega mark: það var Magnea Friðriksdóttir, jafnan kölluð Systa, sem skoraði úr vítaspyrnu.

Magnea var fjölhæf íþróttakona. Nefna má að hún varð bikarmeistari í körfubolta með Þór árið 1976 en handbolti var hennar sérgrein. Hún lék fyrst með Þór en síðan lengi með Val í Reykjavík og varð Íslandsmeistari á þeim vettvangi.

Meðfylgjandi mynd af Þórsstúlkunum ásamt Steingrími Björnssyni þjálfara birtist í Degi. Magnea Friðriksdóttir er önnur frá vinstri í fremri röð. Ritstjóri Akureyri.net þekkir fleiri með nafni en gefur ekki meira upp í bili heldur býður lesendum upp í dans; þeir eru hér með hvattir til að skoða myndina gaumgæfilega og senda ábendingar um nöfn á netfangið skapti@akureyri.net

  • Til gamans má geta þess að bræður Magneu Friðriksdóttur, Jón og Númi, voru kunnir íþróttamenn. Báðir léku knattspyrnu með Þór og ÍBA og körfubolta með Þór, og hafa komið við sögu í þessum vinsæla þætti, gömlu íþróttamyndinni.
  • Númi var einn bikarmeistara ÍBA í knattspyrnu 1969. Smellið hér til að sjá umfjöllun um það lið.
  • Jón og Númi voru báðir í eftirminnilegu körfuboltaliði Þórs sem vann sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Smellið hér til að sjá umfjöllun um Knattspyrnumennina, eins og liðið var stundum kallað.