Fara í efni
Menning

Karlakórinn Geysir fékk flygil hersins

Flygillinn sem Geysir fékk eftir að flestir bandarísku hermennirnir yfirgáfu Akureyri árið 1943.

TÓNDÆMI – 34

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Karlkórinn Geysir eignaðist flygil af Steinway & Sons gerð haustið 1943 og hljóðfærið er enn í eigu Karlakórs Akureyrar - Geysis, liðlega átta áratugum síðar. Flygillinn var í eigu bandaríska hersins og varð eftir í bænum þegar flestir hermennirnir héldu á brott, haustið 1943.

Sagan segir að henda hafi átt flyglinum en yfirmenn í hernum ákveðið að gefa hann frekar kórnum. Reyndar er hermt, í annarri útgáfu sögunnar, að hljóðfærinu hafi hreinlega verið stolið! Úr því fæst varla skorið með afgerandi hætti úr þessu.

Ragnar Stefánsson, síðar kennari við Menntaskólann á Akureyri, fluttist ungur með foreldrum sínum vestur um haf. Hann varð ofursti í bandaríska hernum og við störf á Akureyri á stríðsárunum. Ragnar söng með Geysi þann tíma sem hann dvaldi í bænum og „stuðlaði að minnsta kosti að því“ að kórinn eignaðist flygilinn, eins og gamlir Geysisfélagar munu hafa orðað það.

Ragnar var í varnarliði Bandaríkjamanna á Íslandi með hléum til 1958, var þá kvaddur til starfa vestra á ný en eftir að störfum fyrir herinn lauk 1961 flutti hann alfarinn aftur heim, nam við Háskóla Íslands og starfaði að því loknu sem kennari við MA frá 1964 til 1977.

Flygillinn hefur verið í geymslu síðan Karlakór Akureyrar - Geysir seldi húsnæði sitt, Lón við Hrísalund.