Fara í efni
Minningargreinar

Jón Sigurpáll Hansen

Látinn er óvænt og um aldur fram Jón Sigurpáll Hansen verkstjóri hjá Akureyrarbæ. Ég hef átt Jón að kunningja og vini frá því hann flutti í Innbæinn á Akureyri með móður sinni Dagmar og Ernu systur sinni í Aðalstræti 23. Aðalstrætið á Akureyri var á þeim tíma í senn húsagata og þjóðvegur 1 til Austurlands, þar til jökulfljótin fyrir austan voru brúuð. Furðulegt sambland af bæjargötu og sveit í bæ. Fjöldi barna bjó við Aðalstrætið á þessum árum og aldrei skorti viðfangsefni, hvorki vetur né sumar. Allir eru að einhverju leyti mótaðir af umhverfi sínu. Þess vegna náðum við Jón alltaf vel saman og oft bar á góma framtíð og mótun þessarar deiglu sem Aðalstrætið og Innbærinn var.

Eftir að æskuárum Jóns lauk tók við tími þar sem eitt og annað var reynt, sjómennska, hefðbundin sveitastörf í Svarfaðardal og fleira en alltaf var þó Akureyri og Innbærinn fastur punktur í tilveru Jóns.

Jón var starfsmaður Garðyrkjudeildar Akureyrar um langt árabil. Þaðan lá leiðin til Framkvæmdamiðstöðvar bæjarins, þar sem hann var verkstjóri í áraraðir og í raun allt til æviloka.

Á æskuárum móta aðstæður áhugasvið og viðfangsefni barna og unglinga. Eyjafjarðaráin, sem rann með vesturlandinu meðfram Aðalstrætinu, var uppspretta ótal viðfangsefna. Bátar voru smíðaðir með ýmsu móti og notaðir til siglinga á sumrin. Þegar fyrstu haustfrostin komu og ísinn varð heldur var farið á skauta, þá var oft teflt á tæpasta vað og margur kom því blautur heim.

Skautaís rétt við útidyrnar gaf möguleika á ennþá meiri og fjölbreyttari útivist. Jón Hansen og jafnaldrar hans urðu margir öflugir skautamenn. Þegar fram liðu stundir og Skautafélag Akureyrar, með stuðningi Akureyrarbæjar, hóf að byggja varanlega aðstöðu til skautaiðkunar, á þurru landi með vélfrystingu að erlendri fyrirmynd, hófst nýtt skeið skautaíþróttar á Akureyri.

Aðkoma Jóns og fjölmargra annarra skautafélagsmanna að uppbyggingu vélfrysts skautasvæðis í Innbænum á Akureyri var þrautaganga og þolinmæðisverk, sem þó endaði með byggingu hinnar glæsilegu Skautahallar Akureyrar, sem vígð var árið 2000. Með þeirri framkvæmd og þeirri aðstöðu sem íþróttinni var þá sköpuð hófst nýtt tímabil í sögu skautaíþróttarinnar og Skautafélags Akureyrar.

Jón tók þátt í þeirri athafnasemi af mikilli elju, sem var nauðsynleg til að endurskapa þær aðstæður sem skautaíþróttin þurfti á að halda til þess að gera Akureyri að Vetraríþróttamiðstöð Íslands 1995. Hann sat í stjórn Skautafélags Akureyrar um árabil. Þá blés vindurinn ekki alltaf í framseglið.

Ég vil þakka Jóni traust og góð kynni frá fyrstu tíð og senda eiginkonu hans, Birgittu, og syni þeirra Árna Frey einlægar samúðarkveðjur.

Hallgrímur Þór Indriðason.

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00