Jólahefðirnar mínar – Andrea Pála
JÓLAHEFÐIRNAR MÍNAR
Andrea Pála Brynjarsdóttir,9. bekk Lundarskóla skrifar
Í minni fjölskyldu gerum við allt þetta klassíska á aðventunni. Við gerum laufabrauð með móður fjölskyldunni minni, og síðan gerum við fjölskyldan samverudagatal, bökum smákökur, förum út að renna, horfum á jólamyndir og spilum meðan við hlustum á jólatónlist. Við breytum líka gróðurshúsinu okkar í jólahús með vinafólkinu okkar og drekkum heitt kakó og borðum smákökur í jólahúsinu okkar. Á Þorláksmessu borðum við skötu með vinafólki okkar sem við kynntumst á Möðruvöllum og sú hefð hefur verið í yfir 35 ár. Ég smakka smá af skötunni, en annars fæ ég mér saltfisk og meðlæti. Við förum alltaf í frekar gömlum og ljótum fötum í skötuboðið af því við lyktum svo illa eftir skötuna, og fötin fara beint í þvottavélina þegar við komum heim úr boðinu.

Um miðjan desember heldur amma Pálína árlegt jólaboð heima hjá sér. Þar býður hún upp á hangikjöt, uppstúf og meðlæti. Við förum í leiki og syngjum saman, og erum mjög mörg og mikið fjör. Þegar ég var 8 ára gömul sömdum við amma texta við lagið „Skín í rauða skotthúfu“. Þetta lag syngjum við svo öll saman í jólaboðinu hjá ömmu á hverju ári og þetta er mín uppáhalds jólahefð.
Nú er komin aðventa,
jólaboðið byrjað.
Hangi - hangi - hangikjöt,
borða allir saman.
Kartöflur og uppstúfur,
grænar baunir, rauðrófur.
Malt og appelsín,
beina leið til þín.
Við borðum þetta saman,
og höfum býsna gaman.
Jólin í eldgamla daga – París Hólm
Jólin í eldgamla daga – Magni Rafn
Litasjónvarp, gelgjubókmenntir og ægileg hlussa
Jólahefðirnar mínar – Brynja Dís