Fara í efni
Minningargreinar

Ingi Kristján Pétursson

Nýtt ár er ný hafið og fólk almennt nýkomið út úr jólaamstrinu og horfir fram á veginn.
 
Þá einmitt er reitt til höggs.
 
Kær vinur okkar Húnamanna og einn af stofnendum Hollvina Húna ll er fyrirvaralaust kallaður af velli lífsins. Ingi Kristján Pétursson lést í svefni þann 8. janúar, hafði ætlað að leggja sig aðeins eftir hádegið og kallið kom fyrirvaralaust.
 
Með Inga P er gengið góður félagi og í rúmlega tuttugu ár hefur Ingi tilheyrt hinni svokölluðu áhöfn á Húna ll enda var hann ásamt bróður sínum, Þorsteini þeir sem tóku á móti skipinu þegar það kom til Akureyrar seinni part árs 2005. Og allar götur síðan hafa þeir bræður verið hollustu vinir bátsins.
 
Vinnustundirnar sem þeir bræður eiga í bátnum eftir að hann kom til Akureyrar og varð eign Iðnaðarsafnsins á Akureyri skipta eflaust þúsundum.
 
Ingi P kom fyrir sem einstaklega hlý og traust persóna og alltaf var þetta góða sem hann sá í hverjum og einum og rólegheitin og nærgætnin í orði og athöfnum um leið fylgdi honum allt til hinstu stundar.
 
Á rúmlega tuttugu ára tímabili hefur Húni ll siglt víða, m.a. til Færeyja nokkrum sinnum, til Noregs, á ýmsar hafnir og staði hér á landi og að ógleymdri tónleikahringferð áhafnarinnar á Húna árið 2014 með hljómsveit þar sem komið var víða við, í mörgum af þessum ferðum var Ingi P í áhöfninni og oft munstraður sem bryti, enda listakokkur.
 
Að öllu þessu sögðu þá er sennilega hlutur Inga P hvað stærstur í skólasiglingunum svokölluðu þar sem Húni hefur nú í 20 ár siglt með krakka úr 6. bekk í grunnskólum Akureyrar og nágrennis í fræðslu siglingar á Eyjafirði og ferðirnar þar sem Ingi var um borð skipta eflaust hundruðum.
 
Þar komu hinir miklu mannkostir Inga hvað best í ljós, innan um krakkana, að sýna þeim og aðstoða við veiðarnar, og ég veit að þar naut kappinn sín vel enda átti hann mjög svo auðvelt með að nálgast og vinna með börnum og hlýjan og nærgætnin sem hann átti svo af bar naut sín hvað best.
 
Nú sl. haust var Ingi með okkur í skólasiglingunum marga túra og þótt komin væri yfir áttrætt virtist það ekkert há okkar manni og hann stóð sína vakt með sóma, svo sannarlega.
 
Já, það er erfitt að hugsa sér Húna ll án Inga P og sagan mun geyma hlut hans í þeirri merku verndun bátsins okkar og þar er hlutur Inga fyrirferðamikill, enda væntumþykja hans og elska til bátsins öllum kunn, svo og handverk hans stór sem smá má víða sjá um borð.
 
Það stafaði alltaf einhver ró og yfirvegun yfir orðum og gerðum Inga P og það smitaði frá sér og það voru ófá skiptin sem hann kvaddi mann með orðunum „elskan“ og þá fann maður hvað bjó að baki, orð sem voru meint og þessi einstaka góðmennska og hlýja.
 
Vissulega gat Ingi P á góðri stund tekið þátt í glensi, galsa og gleði og oft var hlegið við störfin um borð í Húna ll.
 
Það sem einkenndi líka Inga Kristján og var mjög ríkt í fari hans var það kristilega viðhorf sem hann hafði til lífsins sem kom fram í atferli hans og orðum sérstaklega og nú þegar Ingi okkar kæri vinur stendur frammi fyrir skapara sínum á efsta degi er ekki efi að okkar maður fær hlýjar móttökur í himnasal og í landinu eilífa þar sem sólin skín sem mest og best og þar mun Ingi Kristján Pétursson eiga tryggan stað.
 
Við Hollvinir Húna allir sem einn, lútum höfði í dag, fimmtudaginn 29. janúar 2026 á jarðarfaradegi kærs vinar og kveðjum einstaklega góðan félaga okkar með innilegum þökkum fyrir allt og allt.
 
Félagsskapurinn Hollvinir Húna og já, áhöfnin á Húna ll, sendir börnum Inga Kristjáns, barnabörnum, bræðrum hans, ásamt kærri vinkonu Inga, Árdísi Maggý Björnsdóttur sem og öllum öðrum ástvinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.
 
Góður drengur er genginn.
 
Blessuð sé minning Inga Kristjáns Péturssonar.
 
Hvíli hann í friði og faðmi Guðs.
 
Hollvinir Húna

Ingi Kristján Pétursson

Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar
29. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
26. janúar 2026 | kl. 19:45

Haukur Jóhannsson

Gulló, Möggurnar þrjár, Tommi, Siggi og Geiri skrifa
23. janúar 2026 | kl. 10:00

Haukur Jóhannsson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

Haukur Jóhannsson

Skíðafélag Akureyrar skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00