Haukur Jóhannsson
Fallinn er nú frá okkar góði vinur, Haukur Jóhannsson. Okkar kynni hófust þegar við, ung að árum, hófum að stunda skíði og æfa þá íþrótt í Hlíðarfjalli.
Hópurinn sem þá stundaði æfingar og keppni á vegum Skíðaráðs Akureyrar var fjölmennur og samheldinn. Þjálfari okkar var Viðar Garðarsson sem hélt utan um fjörugan og góðan hóp. Þarna eyddum við saman ófáum stundum við æfingar og keppni og hægt er að segja að þar hafi verið okkar annað heimili. Mikil samstaða og vinátta myndaðist meðal okkar og þar urðu til vinabönd sem síðan hafa haldist.
Haukur var einn af foringjum og máttarstólpum þessa hóps.
Ósjaldan varð Akureyrar hópurinn veðurtepptur þegar haldið var á skíðamót vítt og breitt um landið. Þá reyndi á samstöðu innan hópsins og þar var Haukur hrókur alls fagnaðar. Hann átti í fórum sínum endalausar sögur, sagði mjög skemmtilega frá, gerði grín að mönnum og málefnum og var uppátækjasamur. Hann var stundum hvatvís, fannst að hlutirnir ættu að ganga hratt fyrir sig og að ekkert vesen væri leyfilegt. Ef honum fannst félagarnir eitthvað viðbragðsseinir, þá sagði hann okkur vera straumlaus, en alltaf meinti hann vel. Hann var mikið ljúfmenni og mátti ekkert aumt sjá. Haukur var skemmtilegur maður sem gaman var að vera í samvistum við.
Nú í seinni tíð, þegar við höfum hitt Hauk, hefur berlega komið í ljós hin trausta vinátta sem myndaðist í Hlíðarfjalli forðum tíð og hafa faðmlögin verið hlý og innileg.
Haukur var afburða skíðamaður, margfaldur Íslandsmeistari, tók þátt í tveimur heimsbikarmótum og var fulltrúi Íslands á Olympíuleikunum í Innsbruck árið 1976. Svona árangur næst ekki nema með þrotlausum æfingum, seiglu og miklu keppnisskapi, en öllu þessu hafði Haukur nóg af. Hann keppti þar til hann var 27 ára gamall og telst það langur keppnisferill í skíðaíþróttinni hér á landi.
Við þökkum Hauki fyrir samfylgdina og sendum Ragnheiði, fjölskyldu hans og vinum samúðarkveðjur.
Guðrún Frímannsdóttir, Margrét Baldvinsdóttir, Margrét Vilhelmsdóttir, Margrét Þorvaldsdóttir, Tómas Leifsson, Sigurður Sigurðsson og Ásgeir Sverrisson
Haukur Jóhannsson
Haukur Jóhannsson
Haukur Jóhannsson – lífshlaupið
Jóhannes Sigurjónsson