Ingi Kristján Pétursson
„Það er mikill snjór á veginum. Þú munt sjá lítið sem ekki neitt. Haltu bílnum á veginum og ekki bremsa nema það slakni mikið á kaðlinum.“ Að þessum orðum sögðum steig föðurbróðir minn, Ingi Kristján, inn í Pajeroinn sem Bogi bróðir hans átti, og ók af stað. Ég hafði klárað kúplinguna í Coltinum mínum og var fastur upp við menntaskólabústaðinn þar sem ég hafði verið með dagskrá fyrir Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju þessa helgi. Foreldrar höfðu komið á jeppum og sótt hópinn og ég bað fyrir skilaboð til pabba á lögreglustöðina um að láta sækja mig og bílinn. Þetta var fyrir tíma farsíma, bílasíma var ég ekki búinn að kaupa mér og aldrei þessu vant hafði ég ekki gripið talstöð með mér, var ég þó vanur að vera í sambandi við pabba reglulega í gegnum talstöð þegar ég var með hópa á ferðalagi í nágrenni við Akureyri á veturna. En ég beið rólegur því að ég vissi að dæmið myndi ganga upp þó að pabbi væri á vakt og kæmist ekki sjálfur frá. Því varð ég ekkert hissa þegar Ingi Kristján mætti á jeppanum. Hann heilsaði mér hlýlega eins og hans var vani, greip kaðal, festi hann á milli bílanna og gaf mér ofangreind fyrirmæli. Það er óþarfi að segja frá því að fyrr en varði vorum við komnir í bæinn.
Í minningunni á ég margar svona sögur þar sem Ingi Kristján er sá sem ég gat alltaf treyst á og oft var hann búinn að hjálpa mér. Hann kenndi mér að þrífa bíla og að lesta bíla og kerrur. Þegar ég var nýkominn með bílpróf lenti ég í vandræðum með gamlan Land Rover sem ég var að keyra frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir bílaleiguna. Mikið varð ég feginn þegar ég sá flutningabílinn hans við Varmahlíð. Ingi gæti pottþétt hjálpað mér. „Þú verður að tvíkúpla þessum bíl,“ sagði Ingi Kristján þegar ég hafði útskýrt fyrir honum hvað ég væri að vandræðast með. Þennan dag kenndi hann mér að tvíkúpla. Seinni árin átti hann það svo til að gauka að mér bókum sem honum þótti mikilvægt að ég ætti, yngri og eldri eintökum af ýmsum trúarritum, bókum um kirkjusögu og stundum bókum með frásögnum af sameiginlegum forfeðrum okkar. Ingi Kristján var einstaklega áhugasamur um ættfræði og frásagnir af fólkinu okkar og mikið var gaman þegar stund gafst til að ræða þau mál við hann. Þær stundir hefðu mátt vera fleiri.
Sérstakt hjartans mál fyrir Inga Kristján var að gert yrði lag við Áramótasöng sem pabbi hans orti árið 1957 og fékk hann frænda okkar, Bjarna Hafþór Helgason, til að semja lag við kvæðið. Til er góð útgáfa sungin af Eyþóri Inga Gunnlaugssyni í útsetningu Þóris Úlfarssonar. Í mínum huga lifir hér ekki aðeins minningin um höfund kvæðisins, Pétur Björgvin Jónsson, skósmið, heldur einnig um Inga Kristján, því án hans frumkvæðis hefði þetta kvæði aldrei orðið að lagi:
Upp skal hefja áramótasöng,
af öllu hjarta þakka liðið ár,
þó að leiðin stundum væri ströng,
og stundum féllu af augum sorgartár.
Munum líka marga glaða stund,
minnumst þess, er sólin fögur skein
við fuglasöng og blómum gróna grund,
hvar glitrar daggarperlan hrein – svo hrein.
Glöð við fögnum ári nýju nú
í nafni hans, sem fer með æðstu völd.
Iðkum kærleik, ást og von og trú,
og uppskeran mun verða þúsundföld.
Ég kveð Inga Kristján með miklum söknuði og harma að geta ekki verið viðstaddur útför hans í dag. Strákunum hans öllum og fjölskyldum þeirra, Dísu vinkonu Inga Kristjáns og eftirlifandi bræðrunum tveim, Dóra og Steina Pjé sem og vinum, vandamönnum og Húnafélögum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan og traustan mann lifir.
Pétur Björgvin Þorsteinsson
Ingi Kristján Pétursson – lífshlaupið
Haukur Jóhannsson
Haukur Jóhannsson
Haukur Jóhannsson