Fara í efni
Pistlar

Hymnodia barokkaði í Hofi

Við vorum búin að bíða nokkuð lengi eftir barokkinu. Þótt það beri með sér gleði, fögnuð, dans og skraut og dýrð, eins og Michael Jón Clarke nefndi í inngangi sínum kom eitthvað upp á og sló öllu á frest. En núna á skírdag fengum við loksins að njóta þessarar langþráðu stundar þegar Eyþór Ingi Jónsson kom á svið Hamraborgar í Hofi með Hymnodiu sína, flokk hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, einleikara og einsöngvara – og Hamraborgin iðaði og ómaði.

Efnisskráin var indæl. Í upphafi fluttu kórinn og hljómsveitin hið gullfallega Credo í F-dúr eftir Antonio Lotti, sem fæddist í Feneyjum 1667 og varði mestallri ævi sinni við störf í Markúsarkirkjunni glæsilegu, fyrst sem kontratenór um tvítugt, en vann sig svo upp organistastigann og endaði sem kapellumeistari til dauðadags 1740, tók sér að vísu tveggja ára leyfi og starfaði þá í Dresden. Kór og hljómsveit fluttu Credo afar vel og Krossfestingarþátturinn, sem þykir með merkari tónsmíðum Lottis, fléttaðist fagurlega.

Næsta atriði á dagskrá voru þrír þættir úr Trompettkonsert í D-dúr eftir Giuseppi Torelli. Þar blés Vilhjálmur Ingi Sigurðarson ákaflega hreint vel í lúður sinn í góðum takti við hljómsveitina. Torelli fæddist í Verona, uppi á fastalandinu rétt hjá Feneyjum, 1658. Hann var fiðluleikari og tónskáld og varði mestallri starfsævi sinni þarna í nágrenninu, í Bologna, og samdi meðal annars nokkur tónverk fyrir trompett, og sögu trompettsins fengu áheyrendur að kynnast í inngangserindi Michaels Clarke á veitingastaðnum í Hofi, sem er sem betur fer kominn í gang eftir alltof langa lokun, og heitir núna Garún.

Í hléi safnaðist fólk saman í Nausti, forsal Hamraborgar, en þar veitti Rotary á Íslandi styrki til tónlistarnema fyrir árið 2021, en aðstæður ollu því á þeim tíma að veitingunni þurfti að slá á frest. Stefán Baldursson formaður sjóðsstjórnar og Soffía Gísladóttir umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi veittu þarna Ernu Völu Arnardóttur doktorsnema í píanóleik í Bandaríkjunum styrk sinn, en annar styrkþegi sama árs, Bryndís Guðjónsdóttir sópransöngkona, sem er að ljúka námi við Mozarteum-akademíuna í Salzburg, gat ekki verið viðstödd en flutti kveðju á skjá. Erna Vala lék svo þrjú stykki eftir Sibelius. Þetta atriði hefði notið sín betur á sviði því þarna sáu og heyrðu nánast eingöngu þeir sem næst stóðu.

Soffía tilkynnti að næsta verðlaunaafhending Rotary fyrir árið 2022 yrði með tónleikum austur á Eskifirði 24. apríl. Þar munu leika á hljóðfæri sín styrkþegarnir Alexander Edelstein píanóleikari og Sólveig Vaka Einarsdóttir fiðluleikari, sem bæði stunda framhaldsnám erlendis. Auk þeirra koma fram á tónleikunum fjórir söngvarar af Austurlandi og undirleikararnir Daníel Þorsteinsson og Helena Guðlaug Bjarnadóttir.

Að loknu hléi hófust tónleikar á ný og það var með eindæmum indælt að heyra Hymnodiu syngja Ige Herouvimi, sálm eftir úkraínska tónskáldið Dmitri Bortnianski. Þótt hann sé öldinni yngri en önnur tónskáld á dagskránni var í ljósi yfirstandandi stríðsátaka í Úkraínu bæði viðeigandi og hrífandi að anda með kórnum og hljómsveitinni þessa stund. Michael Jón Clarke hafði gert prýðilega útsetningu fyrir hljómsveit með þessum fagra sálmi.

Og þá var komið að stóru stundinni, sem við, gamlir félagar úr Passíukórnum höfðum beðið lengi, og vorum ekki ein um það. Það var sjálf Gloria í D-dúr Rv. 589 eftir Antonio Vivaldi. Hann fæddist í Feneyjum 1678 og setti sannarlega svip sinn á tónlistarlífið þar með tónsmíðum sínum, bæði kirkjutónverkum og óperum, og var reyndar víðförull og vinsæll þó að taugin væri alltaf römm sem dró hann til föðurtúna. En þrátt fyrir skrautlegt líf og litríkan feril tókst honum einhvern veginn ekki að efnast af list sinni og lést fátækur maður í Vínarborg 1741.

Gloria Vivaldis er stórbrotið og fjölskrúðugt verk sem kórinn og hljómsveitin fluttu af snilld. Einsöngvarar voru líka glæsilegir, Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Hildigunnur Einarsdóttir, sem stigu fram úr kórnum og fluttu einsöngs- og tvísöngsatriði sín með glæsibrag, og samleikur hljómsveitar og einsöngvara var með eindæmum indæll.

Þetta voru í tveimur orðum sagt frábærir tónleikar. Undirtektir tónleikaþyrstra gesta voru mjög langvarandi og innilegar og satt að segja hefði ég gjarnan viljað sitja lengur og heyra meira eða jafnvel spóla til baka og renna prógramminu í gegn á ný.

Enn og aftur – takk fyrir frábæra tónleika og nú er að sjá hvað Hymnodia tekur sér næst fyrir hendur.

Lífið í skógarmoldinni

Sigurður Arnarson skrifar
29. febrúar 2024 | kl. 06:00

Geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 16:20

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hús dagsins: Strandgata 19 b; Laxamýri

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 06:00

Malarvöllur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 11:30

Framúrskarandi Gaukshreiður

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 10:00