Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Þinghúsið á Hrafnagili

Um daginn tók ég fyrir Laugarborg, fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps og var umfjöllunin hluti nokkurs konar „félagsheimilaþríleiks“ um félagsheimili hreppanna þriggja framan Akureyrar. En eins og góðum þríleik sæmir, endar hann í fjórum greinum, því áður en við bregðum okkur fram í Saurbæjarhrepp, að Sólgarði, þótti mér nauðsynlegt að taka fyrir forvera Laugarborgar, hið tæplega aldargamla Þinghús.

Í miðju Hrafnagilshverfi, skammt norðan Reykárgils, nánar tiltekið við Laugartröð 4, stendur leikskóli Eyjafjarðarsveitar, Krummakot. Húsnæði hans á sér merka sögu sem spannar tæp 100 ár en elsti hlutinn, sá vestasti, er fyrrum þinghús og samkomuhús Hrafnagilshrepps. Húsið var reist árið 1924 og formlega tekið í notkun í mars 1925. Byggingin var á sínum tíma afrek metnaðarfullra og eljusamra hreppsbúa með Ungmennafélagið Framtíð í broddi fylkingar.

Í upphafi 3. áratugarins hafði lengi staðið til að reisa samkomuhús. Skriður komst þó fyrst fyrir alvöru á málið snemma árs 1923 þegar Ungmennafélagið Framtíð leitaði samkomulags við sveitarstjórn um byggingu samkomuhúss. Bauðst félagið m.a. til þess að leggja fram 2000 krónur í peningum og gefa vinnu við bygginguna en skilyrði var, að verkinu lyki á árinu 1925. Skemmst er frá því að segja, að stjórnin gekk að þessu tilboði Ungmennafélagsmanna. Hófst þar með vinna að undirbúningi málsins, ásamt frekari samningum við Ungmennafélagið. Einar Jóhannesson múrarameistari á Akureyri var fenginn til þess að gera kostnaðaráætlun og hljóðaði hún upp á 10 þús kr., 7500 í efniskostnað og 2500 í vinnu. Það var svo á útmánuðum 1924 sem samþykkt var endanlega að reisa þinghús á Reykáreyrum á landareign Hrafnagils og hófst byggingin um vorið. Yfirsmiður var ráðinn Jónas Kristjánsson en að byggingunni komu margir innan hreppsins, meðlimir Ungmennafélagsins og fleiri. Það var raunar saga flestra félagsheimila, að þau voru reist fyrir samtakamátt hreppsbúa og allir vildu þar leggja hönd á plóg. Ekki liggja fyrir heimildir um hönnuð hússins, en fram kemur að Ungmennafélagið hafi lagt fram uppdrátt á fyrstu stigum málsins. En hvorki kemur fram hver teiknaði, né heldur hvort sú teikning réði endanlegu útliti hússins. Kannski hefur Einar Jóhannesson múrarameistari, sem vann kostnaðaráætlunina fyrir húsið, einnig gert endanlegar teikningar að húsinu. Á meðal húsa sem Einar hannaði er t.d. Brekkugata 23

Þinghúsið frá 1924 er tvílyft steinhús með háu risi. Að norðan er viðbygging sem er m.a. stigahús til norðurs. Grunnflötur þess er u.þ.b. 9x12m og viðbyggingin að norðan u.þ.b. 8x4m en þar er um að ræða ónákvæma mælingu á kortavef map.is. Húsið er klætt steníplötum á veggjum, bárujárni á þaki og krosspóstar eru í flestum gluggum. Að austan eru viðbyggingar (álmur) og eru þær byggðar úr timbri. Miðálman, byggð 1984 er með lágu risi en austasta álman, frá 1998 er með háu risi. Krosspóstar eru í flestum gluggum elsta hluta hússins en ýmist þverpóstar eða krosspóstar í viðbyggingum.

Eins og gjarnt er með stórvirki hafði meðgöngutími þessarar framkvæmdar verið æði langur, en þegar bygging hússins hófst var liðinn aldarfjórðungur frá því fyrst var hreyft við hugmyndum um byggingu þinghúss. En það var á hreppsnefndarfundi þann 7. mars 1899

Komu þær fyrstu hugmyndir eiginlega til af því, að hreppsnefndin lenti á hrakhólum er Jónas Jónasson prófastur á Hrafnagili hugðist segja henni upp afnotum af húsnæði sínu. Hvers vegna kom ekki fram, enda bar honum varla nein skylda til þess að sjá hreppsnefndinni fyrir fundaraðstöðu. Jónas bauðst hins vegar til þess að lána húsrúm með því skilyrði, að byggt yrði sérstakt þinghús á svokölluðum Kóngshúsum [þar sem nokkrum árum síðar hófst skógrækt og er nú þekkt sem Ungmennafélagsreiturinn eða Aldísarlundur]. En hinn valinkunni stórbóndi og athafnamaður Magnús Sigurðsson á Grund bauðst þá til þess að lána hreppsnefndinni húsnæði til funda, og það til næstu 50 ára. Var hreppsnefnd því komin í öruggt skjól til frambúðar. En það hefur varla verið opinber stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Svo má sjá á bókunum Hreppsnefndar, að á árunum upp úr 1920 fundar hún víða um sveitina, m.a. Hrafnagili, Litla-Hóli, Kroppi og Hranastöðum og giskar undirritaður á, að nefndarmenn hafi einfaldlega skipst á að hýsa fundina.

Fyrsti fundur mun hafa verið haldinn í húsinu 25. janúar 1925 (sbr. Eyjafjarðarsveit 2005: 59) en formlega var það tekið í notkun þann 15. mars það ár. Dagblöð þess tíma hafa ekki mörg orð um vígsluna, en fundargerð hreppsnefndar frá vígslunni (sem var í raun hreppsnefndarfundur) lýsir henni nokkuð nákvæmlega. Þar segir að oddviti hafi afhent húsið hreppsbúum til almennra afnota, ásamt yfirliti um byggingakostnað, minnst þeirra sem komu að byggingunni. og rakið all ítarlega sögu þinghúsbyggingarmálsins allt frá 1899 er hugmyndir komu fyrst fram. Þá minntist hann þeirra hugsjóna, framtíðarvona og ætlunarverka sem við þetta hús væru og ættu að vera tengdar. Svo segir orðrétt: Var þá fundinum snúið í skemmtisamkomu. Hófst þá söngur og óbundin ræðuhöld og kvæðaupplestur. Frumsamin vígslukvæði fluttu þeir Davíð Jónsson hreppstjóri á Kroppi og Júlíus bóndi Ólafsson í Hólshúsum. Stóð fagnaður þessi alt [svo] til kvölds, og voru fundarmenn hinir ánægðustu. Hreppsnefnd Hrafnagilshrepps 1925:15. mars (án nr./bls.).

Í upphafi var samkomusalur á efri hæð og upphækkað leiksvið syðst í salnum en hesthús og eldhús á neðri hæð. Þann 19. mars 1925 mátti sjá í Degi auglýsta íbúð í Þinghúsi Hrafnagilshrepps en búið var í húsinu um árabil (síðast mun fólk hafa búið þarna yfir sumartíman um 1970). Og tveimur mánuðum síðar auglýsir Kristinn Jónsson opnun kaffistofu í húsinu. Hér (Dagur, 9. sept. 1995) segir fyrrum íbúi Þinghússins frá minningum frá 4. áratug síðustu aldar. Þarna má einnig sjá mynd af Þinghúsinu frá þeim tíma og sýnir hún upprunalegt útlit þess. Í húsinu fóru fram, auk funda sveitastjórna hinir ýmsu viðburðir, dansleikir og leiksýningar og á tímabili ráku Kvenfélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Eining barnaheimili í húsinu. Þegar nálgaðist miðja öldina þótti einsýnt, að Þinghúsið á Hrafnagili væri orðið ófullnægjandi sem félagsheimili hreppsins. Hafði þó verið byggt við húsið til norðurs (óvíst hvenær, líklega á fjórða áratugnum, eftir 1935) en ljóst var að hreppurinn þyrfti meira rými til samkomuhalda. Það var því árið 1956, að hafist var handa við byggingu nýs félagsheimilis, Laugarborgar, sem tekið var í notkun vorið 1959. Var hinu nýja félagsheimili einnig valinn staður á Reykáreyrum, skammt sunnan við Þinghúsið. Eftir það þjónaði húsið sem skólahúsnæði en áður hafði kennslan farið fram að Grund og Kristnesi. Í fjóra áratugi var barnaskóli í húsinu, fyrst Barnaskóli Hrafnagilshrepps og fram til 1998 hýsti þinghúsið yngstu bekki Hrafnagilsskóla, sem stofnaður var 1971. Árið 1984 var byggt við húsið til álma til austurs, timburhús á einni hæð með lágu risi, tengd eldra húsinu með anddyrisbyggingu. Í viðbyggingunni voru tvær kennslustofur, næsta rúmgóðar í samanburði við stofurnar í eldra húsinu. Þess skal að sjálfsögðu getið hér, að í húsi þessu hóf greinarhöfundur sína grunnskólagöngu haustið 1991. Nánar tiltekið var það í stofunni syðst á efri hæðinni. Árið 1998 fluttist leikskólinn Krummakot í húsið, samhliða því, að öll starfsemi Hrafnagilsskóla fluttust í aðalbyggingu hans austan Eyjafjarðarbrautar. Var þá byggt við vesturálmuna, timburhús með háu risþaki og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur.

Þinghúsið á Hrafnagili eða Leikskólinn Krummakot er glæst bygging og í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóð og nánasta umhverfi. Frágangur viðbygginga og tengingar á milli álma eru eins og skólabókardæmi um það, hvernig standa skal að viðbyggingu gamalla húsa. Skil á milli Þinghússins frá 1924 og nýrri byggingahluta eru skörp og greinileg og þannig að upprunalega húsið nýtur sín nokkurn veginn til fullnustu. (Það hefur semsagt ekki verið „kaffært“ í nýrri viðbyggingum). Húsakönnun, sem unnin var um 2010, um fundarhús og skóla metur það engu að síður svo, að steníklæðning og viðbyggingar dragi úr útlitsgildi hússins. Þar er varðveislugildi hins vegar ekki metið. Það hlýtur hins vegar að vera ljóst, að varðveislu- og ekki síst menningarsögulegt gildi hússins hlýtur að vera töluvert. Þá styttist í að elsti hluti hússins verði aldursfriðaður, en það gerist við 100 ára markið. Og í þessa tæpu öld hefur alla tíð verið líf og fjör í Þinghúsinu, fyrst samkomur og skemmtanir hreppsbúa og fundir sveitarstjórna og síðar meðal skóla- og leikskólabarna. Og um ókomin ár munu yngstu íbúar Eyjafjarðarsveitar væntanlega eiga skjól á Krummakoti, í hinu aldna Þinghúsi á Reykáreyrum.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. maí 2022.

Myndin að neðan er tekin af hól nokkrum norðan Reykárgils og sýnir Reykáreyrar. Horft til austurs. Þinghúsið til vinstri en Laugarborg til hægri. Gatan Laugartröð liggur þarna undir brekkunum en Hrafnagilsskóli neðan Eyjafjarðarbrautar vestri.

Teikningar að húsinu virðast ekki aðgengilegar á vefnum. Hins vegar ákvað höfundur að freista þess, að teikna upp húsið eftir minni. En eins og fram kemur, sat undirritaður þarna fyrstu fjóra bekki grunnskóla. Tekið skal fram, að höfundur hefur ekki komið þarna inn fyrir dyr í 27 ár. Myndin er undir áhrifum frá teikningum Jónasar Rafnar, sem um miðja síðustu öld teiknaði upp torfbæi í hreppunum framan Akureyrar. Meðfylgjandi teikning sýnir þannig grunnfleti Þinghússins eða yngstu deilda Hrafnagilsskóla á 10. áratug sl. aldar, eingöngu eftir (stopulu) minni greinarhöfundar. Auðvitað er þessi teikning aðeins til gamans, með öllum fyrirvörum, og án nokkurrar ábyrgðar.

Heimildir:

Eyjafjarðarsveit. 2007. Aðalskipulag 2005-25. Greinargerð. Pdf– skjal, sótt í nóvember 2021 á slóðina. 

Gláma-Kím; Árni Kjartanson og Pétur H. Ármannsson. 2010. Fundarhús og skólar í sveitum landsins. Könnun á fjölda og ástandi varðveittra húsa frá fyrri hluta 20.aldar. Reykjavík: Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni Microsoft Word - Fundarhus inngangur PHA yfirl-ÁK.doc (minjastofnun.is)

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hreppsnefnd Hrafnagilshrepps. Fundargerðir 1899-1928. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu og aðgengilegt á vefnum: Gjörðabók hreppsnefndar Hrafnagilshrepps 1899-1928 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. (Meðfylgjandi teikning er gerð eftir þeirri forskrift, sem þar birtist og því telst það rit til heimildar hér)

Hreiðar Hreiðarsson veitti góðfúslega heimildir um m.a. hvenær búið var í húsinu, hvenær skólastarf hófst þar, gegnum Facebook-síðuna Hrafnagilshreppur hinn. Eru honum færðar bestu þakkir.

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26; Breiðablik

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
06. apríl 2024 | kl. 18:00