Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hríseyjargata 1; Steinöld

Syðsta húsið við vestanverða Hríseyjargötu lætur kannski ekki mikið yfir sér, fremur en gatan yfirleitt, sem er skipuð lágreistum og snotrum húsum. En eftir því sem greinarhöfundur kemst næst, er hér um að ræða elsta steinsteypuhús Akureyrar. Fyrsta steinsteypta hús landsins mun vera íbúðarhúsið að Sveinatungu í Borgarfirði, byggt 1895. Hið steinsteypta hús við Hríseyjargötu 1 er aðeins átta árum yngra. Það er byggt 1903 og á því 120 ára stórafmæli á hinu nýhafna ári.

Hríseyjargötu 1 reisti Árni Pétursson árið 1903. Í júní það ár bókar bygginganefnd að hún sé „[...]að mæla út hússtæði fyrir hús það, er Árni kaupmaður Pétursson ætlar að reisa á baklóð sinni, með austurhlið að hinni fyrirhuguðu götu, „parallellt“ við húsalínu Grundargötu og 100 álnum (63m) frá henni. Húsið að stærð 10x10 álnir eða 6,3,x6,3m“ (Bygg.nefnd. Ak. nr. 250: 1903). Fyrirhuguð gata var auðvitað Hríseyjargata en það nafn kom löngu síðar og framan af taldist þetta hús Strandgata 39b. Árni Pétursson kaupmaður var búsettur í Strandgötu 39 og stundaði þar verslunarrekstur og var húsið reist sem bakhús á þeirri lóð.

Ekki minnist bygginganefndin á byggingarefni en Árni reisti húsið úr steinsteypu. Það var ekki algengt á þessum árum, að heilu húsin væru steypt, það voru fyrst og fremst sökklar og kjallarar- og auðvitað skorsteinar en lítið um það, að hús væru steypt. Vegna þessarar framandi byggingargerðar gekk húsið undir nafninu Steinöld. Það var raunar ekki fyrr en 1-2 áratugum síðar, að steinsteypan varð almenn í byggingu íbúðarhúsa. Fyrsta steinsteypuhús á Íslandi mun hafa verið íbúðarhúsið að Sveinatungu í ofanverðum Borgarfirði, byggt 1895, átta árum á undan Hríseyjargötu 1. Steinöld hlýtur því að vera í hópi elstu steinsteypuhúsa á landinu! Athuga ber, að hér er gerður greinarmunur á steinhúsum og steinsteypuhúsum, því steinhús geta jú einnig verið hlaðin. Um langt skeið höfðu verið reist steinhús hérlendis, m.a. hlaðin úr blágrýti, en sú byggingargerð náði aldrei almennri útbreiðslu. Eitt slíkt hús stendur enn á Akureyri, við Norðurgötu 17 á Oddeyri.

Hríseyjargata 1 er tvílyft steinhús með háu risi. Á bakhlið er útbygging; stigahús. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en þverpóstar á neðri, bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Grunnflötur hússins mælist um 6,3x13m en bakbygging er 2,50x3,50m.

Árni Pétursson var fæddur að Oddsstöðum á Sléttu árið 1862 og var því jafnaldri Akureyrarkaupstaðar. En til þess kaupstaðar fluttist hann 12 ára gamall og bjó þar hjá frænda sínum, Jósef Jóhannessyni, járnsmið. Árni nam verslunarfræði í Kaupmannahöfn einn vetur og hóf eftir verslunarstörf hjá J.V. Havsteen á Oddeyri. Starfaði hann þar í fjögur ár en árið 1888 hóf Árni eigin verslunarrekstur. E.t.v. verslaði hann fyrstu árin í húsi Jósefs frænda síns, þar sem hann var búsettur árið 1890 skv. manntali. Hús Jósefs stóð þar sem nú er Strandgata 31 en brann árið 1908. En árið 1894 reisti Árni Pétursson hús á lóðinni, sem nú er Strandgata 39, þar sem hann bjó og verslaði. Verslaði hann einna helst með áfengi og smávöru. Og það var svo sumarið 1903 sem Árni reisti bakhús á lóð sinni. Sem fyrr segir, var það reist sem geymsluhús og var ein hæð með lágu risi. Var það með fyrstu steinsteypuhúsum Akureyrarkaupstaðar, ef ekki það fyrsta, en um það verður ekki fullyrt hér. Alltént er það líkast til það elsta slíkrar gerðar, sem nú stendur.

Ekki naut Árni Pétursson þessa steinhúss lengi, því hann lést 2. ágúst 1904, aðeins 42 ára að aldri. Ráðskona hans, Kristín Árnadóttir, mun hafa erft húseignir hans og átt um áratugaskeið. Lesendur kunna e.t.v. að velta fyrir sér hvort, hún hafi verið dóttir Árna Péturssonar, en það var hún ekki. Kristín, sem hét fullu nafni Guðrún Kristín Árnadóttir, var fædd árið 1858, líkast til á Völlum í Saurbæjarhreppi, og uppalin þar og í Rauðhúsum í sömu sveit. Mjög fljótlega eftir að Kristín ráðskona eignaðist húsin, innréttaði hún íbúðarrými í steinhúsinu og leigði út. Í Manntali 1906 virðist fyrst getið íbúa í Steinhúsi, Strandgötu og það eru þeir Benedikt Sveinbjarnarson, lausamaður frá Hrafnagili og Jón Jónsson frá Króksstöðum. Sjálf bjó Kristín Árnadóttir áfram í Strandgötu 39. Þar brann árið 1907 en Kristín reisti nýtt hús, sem enn stendur. (Kannski hefði bakhúsið brunnið líka, hefði það ekki verið steinsteypt?)

Árið 1925 byggði Kristín Árnadóttir hæð ofan á Hríseyjargötu 1. Þess má geta, að í bókunum Bygginganefndar er húsið sagt nr.1 við Hríseyjargötu eða „svonefnd Steinöld“. Breytingarnar sem Kristín sóttu um fólust í því, að bæta hæð ofan á húsið, lækka (?) risið ofan í 2m og breyta gluggaskipan. Samþykki nefndarinnar var háð ýmsum skilyrðum. M.a. mátti þakskegg ekki vera minna en 15 cm, eldvarnarveggur skyldi vera á norðurhlið og gluggi á götuhlið, norðan við útidyr skyldi í sömu hæð og aðrir gluggar hússins. Við þessar breytingar fékk húsið í grófum dráttum það útlit, sem það enn hefur. Stigabygging á bakhlið kom þó ekki fyrr en löngu síðar. Í bókun Bygginganefndar frá 1925 er vísað í fyrirliggjandi uppdrátt en ekki kemur fram hver teiknaði. Uppdráttur þessi er ekki aðgengilegur í gagnagrunni map.is/akureyri, hefur e.t.v. ekki varðveist. Árið 1924 búa sex manns í húsinu, í tveimur íbúðum. En ári síðar, þegar búið var bæta hæð ofan á húsið, eru íbúarnir hins vegar sautján og íbúðirnar orðnar fjórar. Árið 1961 var byggð við húsið stigabygging og gerður þar sér inngangur á efri hæð. Teikningar að þeirri byggingu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Í Húsakönnun 1995 segir um staðsetningu hússins að það standi „[...]frekar illa undir háum húsagafli við Strandgötu“ (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:96). En húsið blasir þó engu að síður við þeim, sem leið eiga vestur eftir Strandgötunni frá Oddeyrartanga, og þá leið fer nánast hver einasta farþegi skemmtiferðaskipa, sem heimsækja Akureyri. Og fjölmargir aðrir. Að öllum líkindum er Hríseyjargata 1 eða Steinöld eitt elsta, ef ekki allra elsta, steinsteypuhús Akureyrar og ætti að njóta friðunar í samræmi við það. Það er nú tilfellið, að á Oddeyrinni leynast margar perlur, sögufrægar jafnt sem stórmerkilegar í byggingasögulegu tilliti. Stundum heyrast því miður þær raddir, að byggðin á Eyrinni sé að mestu leyti lágkúruleg og ómerkileg; bara kofar eða hreysi sem eigi ekkert annað skilið en stórfellt niðurrif; og helst skuli reisa nýmóðins stórhýsi í staðinn. Hreint út sagt ömurlegt og alrangt en auðvitað á hver maður rétt á sínum skoðunum. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið miðlungs varðveislugildi en það er að sjálfsögðu aldursfriðað skv. hinni svokallaðri 100 ára reglu. Húsið sem er einfalt og látlaust er í góðri hirðu og sómir sér vel í skemmtilegri götumynd. Nú munu tvær íbúðir í húsinu. Myndirnar eru teknar á vetrarsólstöðum, 21. des. 2022.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 250, 24. júní 1903. Fundargerðir 1921-35. Fundur nr. 565, 6. apríl 1925. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00