Fara í efni
Pistlar

Góður boðskapur og metnaðarfull uppfærsla

Leikfélag Hörgdæla sýnir um þessar mundir leiksýninguna Í fylgd með fullorðnum. Höfundur og leikstjóri er Pétur Guðjónsson en verkið er byggt á lögum og textum eftir Bjartmar Guðlaugsson. Líkt og segir í leikskrá sýningarinnar er „Bjartmar flínkur að fanga tíðarandann í textum sínum og á auðvelt með að teikna upp skýrar myndir af raunveruleika íslenskrar alþýðu.“ Við þetta má bæta að húmorinn er kraumandi afl í mörgum hans textum, húmor sem elst hefur vel þótt tíðarandinn hafi vissulega breyst frá því að þeir voru samdir. „Mamma beyglar alltaf munninn þegar hún maskar augun“ „pabbi kallakókið sýpur, hann er með eyrnalokk og strípur og er að fara á ball.“ En svo á Bjartmar líka ljúfsára texta sem sungnir eru bæði við gleði jafnt sem sorgarstundir í lífi þjóðar eins og lagið elskaða Þannig týnist tíminn sem við prestar heyrum alloft flutt við útfarir.

Mér finnst hugmyndin virkilega snjöll hjá Pétri Guðjónssyni, að segja sögu og skapa sýningu út frá sönglögum Bjartmars. Útfærslan er líka býsna snjöll, manneskjuleg, hnyttin og umhugsunarverð. Sagan byggir á minningaráfi reikullar sálar sem heitir Birna og er á miðjum aldri. Hún er fullorðið barn alkóhólista að gera upp fortíð sína og reyna að hugga grátandi barnið sem enn stýrir för í lífi hennar. Það er magnað að sjá og skynja þennan þétta hóp sem kemur að uppfærslunni hvort sem það er fólkið á gólfinu, bak við tjöldin eða á sviði, maður veit að svona sýning verður ekki til nema með samhæfðum kröftum margra aðila. Ljóst er að Leikfélag Hörgdæla hefur á að skipa reynsluboltum meðal leikara, fólk sem er komið með töluverða sviðsreynslu og tæknilega þekkingu af því að taka þátt í mörgum uppfærslum. Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir sem leikur Birnu fullorðna, konuna sem segir söguna og stendur á sviðinu allan tímann, hefur augljóslega mikla dýpt og sýnir heilmikinn skapgerðarleik með sannfærandi hætti, þar er hæfileikarík leikkona á ferð. Bernharð Arnarson og Fanney Valsdóttir leika foreldrana Krissí og Sumarliða og gera það vel, þau ná fram grátbroslegum, breyskum en hlýjum karakterum sem manni fer að þykja dálítið vænt um þegar líður á sýninguna. Særún Elma Jakobsdóttir, Matthildur Ingimarsdóttir og Ylva Sól Agnarsdóttir leika Birnu frá barnæsku til manndómsára. Þær gera virkilega vel, bæði í leik og söng. Aðrir leikarar eru ýmist í minni hlutverkum eða skapa fleiri en eina persónu. Þorkell Björn Ingvason leikur til dæmis séra Karl Matthías í stuttri en sniðugri senu og hafði undirrituð gaman af. Stefán Jónsson leikur Óla vopnfirðing á mjög sympatískan máta svo mann langar helst að bjarga honum út af sviðinu áður en hann verður vandræðalegri í tilraun sinni til að heilla Birnu, það var vel gert hjá Stefáni. Leikhópurinn er heilt yfir þéttur og góður. Hljómsveitin er skipuð þremur snillingum Friðþjófi Ísfeld, Hallgrími Jónasi Ómarssyni og Halldóri G. Haukssyni. Þéttleiki bandsins var mjög mikill og góður en hljóðkerfi leikhússins er hins vegar ekki nógu gott og stundum fannst mér vanta betri samstillingu milli söngs og hljóðfæraleiks sem ég skrifa alfarið á tæknimál en veit að sama skapi að hljóðkerfi eru oft flóknari en nokkurt Nasaverkefni. Að lokum óska ég Leikfélagi Hörgdæla til hamingju með sýninguna, boðskapur góður og uppfærsla metnaðarfull. Ég hlakka til fleiri sýninga á Melum.

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00