Fara í efni
Fréttir

Fyrsti dagurinn lofar góðu í Hlíðarfjalli

Hjónin Gunnlaugur Sverrisson og Ingibjörg Anna Sigurðardóttir í Hlíðarfjalli í dag. Þau voru með þeim allra fyrstu sem fóru í Fjarkann eftir að hann var ræstur og sögðust hafa beðið spennt eftir því að komast í fjallið; hefðu keyrt uppeftir þriðja hvern dag undanfarið til kanna aðstæður! Þau eru engir nýgræðingur á skíðum - Gunnlaugur sagði akureyri.net í dag að þetta væri 59. veturinn sem hann renndi sér í Hlíðarfjalli! Myndir: Þorgeir Baldursson

Í dag var skíðasvæðið í Hlíðarfjalli formlega opnað. Fyrst um sinn verður hægt að renna sér á neðra svæðinu og Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segir aðstæður mjög góðar miðað við árstíma.

„Miðað við 4. desember þá myndi ég segja að þetta væri bara æðislegt,“ segir Brynjar í samtali við akureyri.net þegar hann er spurður út í aðstæður og skíðafæri. Hann segir að yfirleitt sé stefnt að opnun svæðisins um miðjan desember, þannig að þetta sé með fyrra fallinu í ár. Til samanburðar þá var fyrsti opnunardagurinn síðasta vetur ekki fyrr en 4. janúar. Og snjóframleiðslutækin sanna sig enn og aftur. „Það er ekki búið að vera mikil úrkoma en við höfum náð að framleiða mikinn snjó í nóvember. Þannig að við erum að opna núna mikið til á framleiddum snjó. Það er alltaf gleði þegar við opnum og mikil pressa á okkur að opna, þannig að það er ánægjulegt að geta opnað svona snemma,“ sagði Brynjar Helgi. Og þó að brautirnar séu ekki troðnar í fulla breidd ennþá sé færið gott og veðurútlit næstu daga hagstætt.

Í dag er opið til kl. 20 og á morgun verður opið frá kl. 14-19. Um helgina verður hægt að skíða milli kl. 10 og 16. Opið verður á neðra svæðinu og þar verða lyfturnar Fjarkinn, Hólabraut, Auður og Töfrateppi í gangi. Aðstæður fyrir gönguskíðafólk eru yfirleitt hagstæðari og undanfarnar vikur hafa verið troðnar brautir á skíðagöngusvæðinu. Núna eru tvær leiðir opnar þar og samhliða opnun í skíðabrekkunum er búið að taka miðahlið í notkun á göngusvæðinu.

Lyftumiða er hægt að kaupa á vef skíðasvæðisins hlidarfjall.is og þar er einnig hægt að verða sér úti um vetrarkort á tilboðskjörum. Á vefnum er einnig að finna upplýsingar um áframhaldandi opnun skíðasvæðisins.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, alsæll í dag: „Miðað við 4. desember þá myndi ég segja að þetta væri bara æðislegt.“