Fréttir
Aftur hægt að komast á skíði í Hlíðarfjalli
09.01.2026 kl. 10:53
Nú er aftur hægt að renna sér á skíðum í Hlíðarfjalli. Mynd: Facebook-síða Hlíðarfjalls.
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hefur verið opnað á ný, eftir að hlýindakaflar í lok síðasta árs settu strik í reikninginn og mikinn snjó tók upp. Opið er í dag, föstudag, frá kl. 11-19 og stefnt er að því að hafa opið frá kl. 10-16 um helgina.
Eins og er þá er bara opið á neðra svæðinu í fjallinu og ein stutt gönguskíðabraut hefur verið opnuð. Aðstæður til skíðaiðkunar eru mjög góðar í þeim brautum sem búið er að opna, að því er fram kemur á Facebook-síðu Hlíðarfjalls. Þar er einnig áréttað að lítill sem enginn snjór sé utan troðinna brauta og mikilvægt sé að virða merkingar og lokanir.
Snjóframleiðsla hófst af fullum krafti á gamlársdag og standa vonir til að hægt verði að koma inn fleiri leiðum fljótlega, ef vel gengur áfram að framleiða snjó.