Fara í efni
Pistlar

Dynheimar eða Little Bighorn?

ORRABLÓT - III

Drýsill í Dynheimum. Það voru fyrstu alvöru tónleikarnir sem ég sótti í þessu lífi. Og þvílík veisla.

Mig minnir að þetta hafi verið síðla árs 1985 en það gæti þó rétt eins hafa verið á fyrstu mánuðum ársins 1986. Í öllu falli var það rétt áður en þetta fyrsta alvöru málmband Íslandssögunnar lagði upp laupana, eins og fyrstihúsin forðum. Ég sat þarna á svölunum ásamt Rúnari Friðrikssyni vini mínum og einhverjum fjórum eða fimm öðrum. Upp við sviðið stigu svo Siggi pönk og félagi hans, sem ég man ekki hver var, æðisgenginn stríðsdans svo annað eins hafði ekki sést frá orrustunni við Little Bighorn. Við Rúnar höfðum þó takmarkaðan smekk fyrir þeim gjörningi enda var búið að flagga alla pönkara rangstæða á þessum tíma en þungarokkarinn óðum að koma sér upp vængjum.

Rígurinn milli pönkara og þungarokkara minnti raunar um margt að ríginn milli Þorpsins og Brekkunnar, KA og Þórs, góðs og ills ... Nei, nú er ég líklega orðinn aðeins of dramatískur.

Einn úr okkar röðum vann á þessum tíma við mubluburð á Akureyri og fræg er sagan af því þegar verkstjóranum þótti miða eitthvað hægt þann daginn og las yfir hausamótunum á honum: „Reyndu að drulla þér úr sporunum, helvítis pönkarinn þinn!“ Þið afsakið orðbragðið!

Okkar maður lagði þá frá sér sófann og svaraði með hægð en allnokkrum þunga: „Ég er ekki pönkari, ég er þungarokkari!“

Ekki fylgdi sögunni hvort verkstjórinn gerði sér grein fyrir muninum.

Téður rígur er löngu gleymdur og grafinn og í dag þykir mér vænt um alla pönkara.

Sjálfur var Siggi pönk um tíma í eftirminnilegri síðpönkhljómsveit, Joð-ex, ásamt Rögnvaldi gáfaða og fleiri mætum mönnum. Man eftir að hafa séð þá spila í hátíðarsal Glerárskóla. Þar stóðu þeir í nákvæmlega sömu sporum og séra Pálmi þegar hann þjónaði fyrir altari. Það gerði hann árum saman þarna í hátíðarsalnum áður en Glerárkirkja reis.

Það var líka Siggi sem málaði hin áleitnu skilaboð, „friður eða gjöreyðing?“, sverum stöfum á vegginn í sameiginlegu rými nemenda í kjallaranum í Glerárskóla. Ég man að þetta olli mér heilabrotum. Við lifðum þarna viðsjárverða tíma og kjarnorkuváin var nánast áþreifanleg. Þannig að eðlilegt var að Siggi hefði áhyggjur af þessu. Ekkert ungmenni gat útilokað þann möguleika að vakna dáið. Bomban hefði fallið.

Hinn akureyrski Siggi pönk - Sigurjón Baldvinsson - sem kemur við sögu í pistli Orra Páls.

En tökum nú upp léttara hjal. Við erum komin alveg út í móa. Dauði, gjöreyðing ... Og það eru að koma jól!

Eiríkur Hauksson og félagar í Drýsli létu hvorki fámennið né stríðsdansinn á sig fá í Dynheimum og keyrðu helþétt prógramm í gegn af fumleysi og festu. Mest var það af fyrstu og einu breiðskífu bandsins, Welcome to the Show, sem þá var nýkomin út, en einnig fengu ábreiður að hljóma. Þeir tóku til dæmis We Will Rock You eftir Queen með talsverðum tilþrifum. Mér hafði ekki í annan tíma þótt ég vera eins réttur maður, á réttum tíma og í hárréttu húsi.

Eiríkur Hauksson varð næst á vegi mínum sumarið 1988 en hann var þá fararstjóri ásamt Sigurði Sverrissyni, ættföður okkar íslenskra þungarokkara, í miklum leiðangri á málmhátíðina Monsters of Rock í Donington á Englandi. Margt var þar um skrímslið. Þangað stefndi ég bomsunum ásamt vinum mínum Birgi Karli Birgissyni, Sævari Árnasyni og Eiríki Árna Oddssyni heitnum.

Enginn okkar hafði áður komið til Bretlands. Ég var á málabraut í MA og átti að vera ofboðslega góður í ensku, þannig að ég hafði orð fyrir okkur þegar við settumst inn í leigubílinn á Heathrow. Það var hins vegar skellur að bílstjórinn skildi ekki einu sinni nafnið á hótelinu, eins og ég bar það fram, hvað þá meira!

En fall er fararheill og við félagar áttum frábæra daga í heimsborginni Lundúnum, að ekki sé talað um Donington, þar sem aðeins fleiri voru saman komnir en í Dynheimum, eða 107 þúsund manns. Drýsill var að vísu fjarri góðu gamni en ekki ómerkari sveitir en Iron Maiden, Kiss, Guns N‘ Roses og Megadeth hlupu í skarðið. Helloween og David Lee Roth voru þarna líka. Allt þekktar stærðir heima á Akureyri, nema þá helst Guns N‘ Roses. Við félagar vorum mátulegar bjartsýnir á frama fyrir hönd þeirra ágætu pilta!

Ég hætti mér aldrei nógu nálægt sviðinu til að sjá hvort Siggi pönk væri á sínum stað.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. maí 2024 | kl. 06:00

Oddeyrargötuöspin og hæðarmælingar trjáa

Sigurður Arnarson og Bergsveinn Þórsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 19:00

Fimmtudagskvöld

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. maí 2024 | kl. 11:30

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30