Amtsbókasafnið: Engin tilboð í veitingarekstur

Í sumar auglýsti Amtsbókasafnið á Akureyri eftir tilboðum í rekstur veitingastofu á 1. hæð safnsins. Tilboðsfrestur rann út í síðustu viku en engin tilboð bárust. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður segir að verið sé að meta næstu skref.
Síðustu árin hafa verið ýmsar sviptingar í veitingarekstrinum á Amtsbókasafninu og sumir rekstraraðilar stoppað stutt við. Veitingastofan hefur verið lokuð um hríð, eftir að síðasti rekstraraðili hætti þar starfsemi, og núna blasir við að enn verður bið á að hægt verði að njóta veitinga á safninu. Þar sem skammt er síðan í ljós kom að enginn sýndi áhuga á veitingarekstrinum í útboðinu er framhaldið enn óvíst. Þó er ljóst að ekki verður farið í annað útboð. „Næsta skref er að leggja höfuð í bleyti og fá góðar hugmyndir að notkun á aðstöðunni,“ segir Hólmkell amtsbókavörður. Ýmislegt komi til greina og hann tekur fram að hugmyndaríkir megi gjarnan láta ljós sitt skína. Allar góðar hugmyndir um framtíðarnýtingu veitingaaðstöðunnar verði skoðaðar.