Alnafnarnir þrír og einkennisbúningarnir

TÓNDÆMI – 25
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Lúðrasveit Akureyrar var stofnuð 25. október 1942 og hefur starfað samfellt síðan, en slíkur félagsskapur hafði þá reyndar verið starfandi lengst af síðan fyrir aldamót, eins og rifjað var upp á þessum vettvangi fyrir skömmu – sjá hér.
Þegar gluggað er í sögu sveitarinnar má finna ýmsa skemmtilega punkta. Skulu tveir nefndir í dag en meira verður birt síðar.
- Félagar í Lúðrasveit Akureyrar klæddust í mörg ár þeim fallega einkennisbúningi sem hér má sjá, þegar sveitin kom fram opinberlega. Fötin voru saumuð á saumastofu Gefjunar árið 1962 og skartaði lúðrasveitin þeim í fyrsta sinn á 100 ára afmæli Akureyrar 29. ágúst það ár.
- Þegar Akureyringar fögnuðu 100 ára afmælinu var efnt til hátíðahalda sem stóðu í nokkra daga. „Eins og að líkum lætur þá var Lúðrasveit Akureyrar ætlaður stór þáttur þar í og sáu lúðrasveitarmenn sér nú leik á borði, að nota þetta tækifæri til að koma sér upp einkennisbúningi, en fram til þessa höfðu húfur með hvítum kollum verið sameiningartákn sveitarinnar,“ segir Lárus Zophoníasson, sem lengi lék með sveitinni, í bókinni Skært lúðrar hljóma – Saga íslenskra lúðrasveita, sem kom út árið 1984.
- Lárus Zophoníasson segir að bæjaryfirvöld hafi veitt lúðrasveitinni styrk til að láta gera jakka og húfur á alla meðlimi sína, „en þeir keyptu sjálfir buxurnar, hver fyrir sig.“
Lúðrasveit Akureyrar leikur á íþróttavellinum við Hólabraut á afmælishátíðinni þegar 100 ára afmæli Akureyrar var fagnað í ágúst 1962. Þetta er eina mynd sem blaðamaður hefur fundið af hljómsveitinni á hátíðinni; húnn birtist í Verkamanninum, vikublaði sem gefið var út af Sósíalistafélagi Akureyrar og Fulltrúaráði Alþýðubandalagsins í Norðausturkjördæmi eystra.
- Þrír alnafnar voru í Lúðrasveit Akureyrar 1971. Ótrúleg tilviljun og svo skemmtilega vill til, hvort sem það er tilviljun eður ei, að þeir eru hlið við hlið á myndinni hér að neðan.
- Dæmigerð, akureyrsk útskýring á því hverjir Árnarnir þrír eru, hlýtur að vera þessi:
- Árni sonur Árna Valmundarsonar vélsmiðs, Árni sonur Árna Árnasonar í BTB (Byggingavöruverslun Tómasar Björnssonar) og Árni sonur Árna Þorlákssonar, yfirverkstjóra í Slippstöðinni.
Lúðrasveit Akureyrar árið 1971. Aftasta röð, frá vinstri: Sigurður Mikaelsson, Sævar Vigfússon, Hannes Arason, Pétur Breiðfjörð, Árni Árnason (Valmundarsonar vélsmiðs), Árni Árnason (Árnasonar í BTB), Árni Árnason (Þorlákssonar, yfirverkstjóra í Slippstöðinni), Stefán Bergþórsson. Miðröð f.v.: Finnbogi Jónasson, Auður Árnadóttir, Kristinn Kristjánsson, Lárus Zophoníasson, Grímur Sigurðsson, Guðjón Steindórsson, Guðlaugur Baldursson, Einar Jónsson. Fremsta röð f.v.: Kristján Falsson, Ólafur Þór Ævarsson, Ævar Karl Ólafsson, Sigtryggur Helgason, Einar Janus Kristjánsson, Stefán Hallgrímsson.