Fara í efni
Minningargreinar

Þorleifur Jóhannsson

Enn á ný helltist myrkrið yfir.

Vinur minn Þorleifur Jóhannsson, Leibbi, er fallinn frá og bara tæpir þrír mánuðir síðan sameiginlegur vinur okkar, Brynleifur Hallsson, Billi Halls, lést.

En bjartar og fallegar minningar undanfarin 56 ár ylja á erfiðum stundum.

Við Leibbi urðum vinir þegar Helgi Vilberg, bekkjarbróðir Leibba, mætti með hann til prufu hjá okkur Bravóstrákum sem vorum trommuleikaralausir. Hann hafði aldrei spilað á trommur áður. Hann bara settist við trommusettið og byrjaði að tromma og var bara strax eins og þaulvanur trommari frá fyrstu stundu.

Frá fyrsta degi höfum við verið perluvinir. Við áttum skemmtilega tíma saman í Bravó og stendur þá upp úr þegar við 12 og 13 ára guttar fengum það einstaka tækifæri 1965 að hita upp fyrir The Kinks, sem var ein af frægustu popphljómsveitum heims á þeim tíma.

Þetta var ævintýri sem kom til þegar við skemmtum í skíðahótelinu á Akureyri. Andrés Indriðason, sá yndislegi maður, „uppgötvaði okkur“. Hann kom ýmsu góðu til leiðar fyrir okkur norðanstráka. Við Leibbi vorum líka samstiga í hljómsveitinni Ljósbrá og Hljómsveit Ingimars Eydal. Árið 2009 komu Bravóstrákar aftur saman eftir 44 ára hlé. Það varð til þess að þétta enn þá betur saman okkur gömlu vinina. Við reyndum að koma saman a.m.k. einu sinni á ári og þetta gaf okkur mikið og það var gott að finna hversu góðir vinir við vorum allir og væntumþykjan mikil.

En fljótt skipast veður í lofti. Billi hringir í mig seinnipartinn í júlí og tilkynnir mér alvarleg veikindi Leibba, veikindi sem við vissum að gætu farið á versta veg. En svo skrýtið sem það nú er þá varð Billi bráðkvaddur 3. okt. og Leibbi 23. des., tæpum þremur mánuðum seinna. Stórt skarð er rofið í félagsskap okkar hljómsveitarvina.

Leibbi var hvers manns hugljúfi, eðalvinur, mjög fyndinn og skemmtilegur, svo falleg sál, fallegur utan sem innan.

Leibbi var mikill listamaður í sér, hvort sem um var að ræða trommur, gítar, bassa, teikningar eða smíðar. Hann var lærður húsgagnasmiður, það bókstaflega lék allt í höndunum á honum, allt svo vandað og vel gert.

Ég fylgdi honum í veikindastríðinu eins og kostur var. Þvílíkt æðruleysi sem hann sýndi, bara bjartsýni og ekkert væl. Við töluðum bara saman á léttum nótum, rifjuðum upp gamlar góðar minningar og vorum með okkar einkahúmor og hlógum mikið þrátt fyrir alvarlegt ástand hans.

Ég á eftir að sakna vinar, það er skrýtið til þess að hugsa að tveir af mínum bestu vinum séu horfnir af sviðinu, en ég trúi því að við eigum eftir að hittast aftur og þá verður örugglega talið í einhver lög.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið þann stóra happdrættisvinning í lífinu að vera vinur Leibba, sem var vinmargur og elskaður af öllum sem hann þekktu. Blessuð sé minning míns kæra vinar sem mér þótti óendanlega vænt um og ég óska Leibba mínum góðrar ferðar í Sumarlandið fagra.

Elsku Ellen og fjölskylda. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Minning um yndislegan mann lifir að eilífu.

Takk fyrir allt elsku vinur.

Sævar Benediktsson.

Kári Árnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Jón Ingvi Árnason skrifar
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason

Elva, Katrín og Erna Káradætur skrifa
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason – lífshlaupið

19. júlí 2024 | kl. 08:55

Hulda Lilý Árnadóttir

Rannveig Svava Alfreðsdóttir skrifar
18. júlí 2024 | kl. 06:00