Fara í efni
Minningargreinar

Svanur Eiríksson

Síðustu daga hafa skrefin verið þung en sunnudaginn 6. nóvember féll elsku tengdapabbi frá.

Mig langar að kveðja þig, elsku Svanur, með nokkrum fátækum orðum. Þú veist ekki hvað ég er þakklátur fyrir heimsókn til þín rétt fyrir andlátið þar sem við sátum saman og fórum yfir öll lífsins mál. Við höfum alveg átt nokkrar rimmurnar þar sem við vorum ekki alltaf sammála og stundum gerði maður í því að ræða við þig pólitík til þess að ná þér aðeins upp og fá að heyra hve miklir vitleysingar það væru sem væru að reyna að stýra þessu samfélagi, en eins og í mörgum málum hafðir þú sterkar skoðanir á slíkum hlutum. Fyrir þessar stundir er maður þakklátur í dag og eigum við sem eftir erum örugglega eftir að rifja upp eitthvað af þessum samtölum og brosa í gegnum tárin er við yljum okkur við þessar minningar.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir allar stundirnar sem þú komst og hjálpaðir okkur eða öðrum við flutninga, breytingar á húsnæði eða hvað það var sem þurfti hjálp við. Alltaf varstu boðinn og búinn til þess að hjálpa, stundum kannski fullboðinn í breytingar samkvæmt þínu plani, enda varst þú sá eini í fjölskyldunni sem var með löggilda skoðun og við áttum stundum bara eftir að átta okkur á því að þín hugmynd var best.

Svartur húmorinn var líka til staðar og man ég alltaf eftir fyrsta skiptinu sem ég kom heim með Sunnu. Rúmlega 16 ára hafði ég nú ekki meiri kjark en svo að ég fékk vin minn sem var með okkur á Akureyri til þess að kíkja í heimsóknina með mér. Var að sjálfsögðu yfirheyrður í bak og fyrir, þú gafst mér strax smá von þar sem ég var Þingeyingur, en þeir voru bestir í heimi eins og þú sagðir oft. Að lokinni heimsókn þá taldi ég mig hafa komist nokkuð vel frá henni og var þakklátur er við vorum að kveðja og labba út í bíl. Rétt áður en við stigum inn í bílinn kallaðir þú til Sunnu: „Sunna, mér líst eiginlega betur á hinn.“

Daginn sem ég hringdi í þig til að biðja um hönd Sunnu þá var eina beiðni þín að ég myndi elska hana jafn mikið og börnin okkar, þá myndi þetta ganga vel hjá okkur. Þetta er ráð sem ég hugsa oft til og er þakklátur fyrir í dag.

Elsku Svanur, takk fyrir allar stundirnar, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur Sunnu og börnin okkar öll. Þín verður sárt saknað. Við munum passa vel upp á Erlu þína og yljum okkur við skemmtilegar minningar er við hugsum fallega til þín.

Hvíl í friði.

Sævar Pétursson.

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05

Hermína Jónsdóttir

Rannveig María, Erlingur, Anna Marit og Ragnhildur skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05