Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Friðriksson

Elsku besti pabbi minn.

Vegna þín er ég sterk, vegna þín hef ég þor, vegna þín er ég þrjósk. Vegna þín veit ég hvaða kraftar halda skipum á floti, af hverju kemur rigning, hvaða straumar eru hér og þar, og svo blessuðu sjómílurnar. Allt þetta vildirðu að við vissum. Þegar tækifæri gafst var oft gott að þú varst heima þegar mann vantaði svör við erfiðum spurningum í lærdómnum. Stundum, þegar maður vildi bara stutt og einfalt svar, þá hugsaði maður æi nei, ég hef ekki tíma, svarið verður svo langt og fróðleikurinn of mikill. Þannig varstu, þú vissir mikið um það sem mér fannst flókið. Minningar um hátíðlegan sjómannadag þegar við systkinin fengum ný föt. Hátíðahöldin við sundlaugina eru góðar minningar. Siglingarnar voru æði margar sem þú fórst í og það var alltaf gaman að fá þig heim úr siglingu með alls konar skemmtilegt dót og góðgæti. Vegna þín bjó ég á Vopnafirði, ljóslifandi minning um að hafa búið á „Hótel Tanga“ og bankinn í endanum; þangað var gaman að fara og skoða plakatið með öllum fiskunum, gaman var að spyrja þig um og sýna að maður vissi nöfnin á hinum ýmsu tegundum. Það er líka gott að eiga minningar um Þórshöfn, en þangað hafðir þú sterkar taugar og Stakfellið er stór hluti af okkur. Ég fékk að fara með þér í siglingu 16 ára gömul, ferðin út var nú ekki mjög gleðileg, ég var veik allan tímann en þú hugsaðir vel um mig, færðir mér súpu og stappaðir í mig stálinu. Það varð mér til happs að ferðin varð lengri og ég fékk að upplifa meira. Fara á fiskmarkað og sjá hvernig fiskurinn var seldur, borða fínar steikur, en það áttum við sameiginlegt að elska góðar steikur. Í þessari ferð heyrði ég þig segja setningu sem ég reyndi alltaf að standa undir: „Ég treysti henni fullkomlega, hún hefur alltaf sýnt mér að ég get það.“

Elsku pabbi, þú varst sterkur, þú varst þrjóskur, þú gast stundum verið erfiður, en alltaf varstu sanngjarn. Þú kenndir okkur að standa á okkar, vera vinnusöm, heiðarleg og dugleg og ekki var verra að hafa skoðanir á hlutunum. Það var gaman að ræða um hin ýmsu álitamál s.s. kvótamál og hvaða skoðanir þú hafðir á hinu og þessu sem var í fréttum. Þú varst stoð mín og stytta á svo margan hátt ásamt mömmu. Saman, á ólíkan hátt, hafið þið gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Verkefnið sem þú fékkst í hendurnar árið 2017 varð bara að einu verkefninu sem þú þurftir að sinna og það gerðir þú óhikað. Það sem ég hef oft hugsað um styrk þinn og erfiði úr æsku, vera 8 ára gamall og þurfa að vera í 2 ár á spítala getur ekki hafa verið auðvelt fyrir litla barnssál. Elsku pabbi. Ég veit að þú vildir berjast gegn þessu, þú kunnir ekkert annað og ekkert annað kom til greina. „Maður verður að streða í þessu meðan hægt er,“ sagðir þú 10 dögum fyrir kveðjustundina, en þú varst nú skynsamur maður og vissir auðvitað að lífið er ekki endalaust en ætlaðir þér samt lengra. Takk fyrir allt, elsku besti pabbi minn. Þig virti ég og dáði og sterka faðmlagsins mun ég sannarlega sakna.

Þín Dísa.

Þórdís Rósa.

Smári Jónsson – lífshlaupið

Fjölskylda Smára skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05