Fara í efni
Minningargreinar

Sigríður Árnadóttir

Í dag kveðjum við móður okkar, Sigríði Árnadóttur frá Finnsstöðum í Eiðaþinghá, sem lengst af bjó raunar á Akureyri. Hún fæddist og ólst upp á ættaróðalinu, Finnsstöðum, sem hafði verið í ábúð ættarinnar allt frá árinu 1687. Raunar næstelsta ættarsetur á Austurlandi.

Allt frá barnæsku hafði hún mikinn áhuga á tónlist og íþróttum og þá sérstaklega sundi. Hún fékk að fara á sundnámskeið tíu ára gömul, sem tíðkaðist ekki í sveitinni á þeim árum. Sundáhuginn hélst allt fram til þess síðasta og var dagurinn nánast ónýtur ef hún missti af tíma með sundleikfimihópnum í Akureyrarlauginni.

Veturinn 1948-1949 var hún í Reykjavík í söngnámi og stefndi að framhaldsnámi erlendis en þurfti að gefa þann draum frá sér. Á Egilsstöðum söng hún í blönduðum kór, stóð fyrir dansleikjahaldi með vinkonu sinni og var virk í Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Þar lágu einmitt saman leiðir hennar og Eyfirðingsins Jóhanns Helgasonar sem hafði komið austur til að vinna í Kaupfélagi Héraðsbúa.

Þau stofnuðu heimili á Akureyri þar sem fjölskyldan dafnaði á komandi árum, sjö börn á fjórtán árum. Það var því ærið verkefni að hugsa um heimilið og barnaskarann. Mömmu og pabba var mjög umhugað um velferð okkar systkinanna hvort sem var í námi, íþróttum, tónlist eða hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur. Mamma lærði undirstöðuatriði lestrarkennslu og sá til þess að við komum öll fluglæs í Barnaskólann.

Mamma var mikil blómaræktarkona og helgasti staðurinn í garðinum var bóndarósabeðið. Þar uxu hinar fegurstu rósir sem vöktu verðskuldaða aðdáun. Einn daginn hafði vegfarandi skilið eftir svohljóðandi vísu í rósabeðinu í Hrafnagilsstræti 38:

Enn sú fegurð allt það ljós eyðir hverjum skugga.Þar sem ilmar rauðust rósrétt við opinn glugga.

Mikill íþróttaáhugi hefur alla tíð einkennt fjölskyldu Sigríðar og Jóhanns. Við systkinin öll keppnisfólk í íþróttum og virk í félagsstörfum fyrir okkar félag. Sama má segja um flest barnabarnanna. Þetta var mömmu vel að skapi sem tók sérstöku ástfóstri við handboltann. Hún fylgdist vel með gengi sinna liða, átti sitt fasta pláss í stúkunni í KA heimilinu þar missti hún helst ekki af heimaleik, hvort heldur var hjá karla- eða kvennaliðum.

Sigríður og Jóhann eignuðust sjö börn og þegar við bættust tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn er óhætt að segja að ávallt hafi verið líf og fjör í kringum þau. Mamma var mikil fjölskyldukona og afar umhugað um allt sitt fólk, hafði jafnan orð á því að hún væri hvað stoltust af því að hafa hjálpað til við að koma allri hersingunni til manns.

Hún hélt upp á níræðisafmælið með því að kaupa íbúð og flytja á efstu hæð í Víðilundi 24 sem hafði þann ótvíræða kost að þannig fékk hún besta stúkusætið með útsýni yfir KA svæðið. Þar bjó hún síðustu fjögur árin, með stuttu lokastoppi á hjúkrunarheimilinu Hlíð.

Við eftirlifandi systkinin erum mömmu ævarandi þakklát fyrir uppeldið og að hafa komið okkur og afkomendum okkar til manns og biðjum fyrir innilegar kveðjur til ættingja og vina í sumarlandinu.

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður Jóhannsbörn

Kári Árnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Jón Ingvi Árnason skrifar
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason

Elva, Katrín og Erna Káradætur skrifa
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason – lífshlaupið

19. júlí 2024 | kl. 08:55

Hulda Lilý Árnadóttir

Rannveig Svava Alfreðsdóttir skrifar
18. júlí 2024 | kl. 06:00