Fara í efni
Minningargreinar

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Petra mín kæra systir er horfin úr þessum heimi. Minningar frá liðnum árum eru margar og hlýjar enda manneskjan engri manneskju lík. Ætíð og alltaf til í að vinna öll störf, vinna á vélum, heyskapur, smölun, sauðburður, mjólka kýr, mála veggi, múra eða steypa, flytja búslóðir, þrífa eða hvað sem var. Petra gat gert allt og hún gerði allt hugrökk sem ljón svona eins og Lína Langsokkur, já og lífsglöð eins og Lína.

Hún hafði dálítið dálæti á okkur yngri bræðrum sínum. Petra kenndi okkur alls konar, t.d galdurinn við að poppa, nú eða gera samlokur með skinku osti og ananas. Það að bregða á leik, fara í fótbolta, fara á hestbak. Petra elskaði tónlist og var tónlist og söngur samofinn hennar lífi og greip hún oft í gítarinn og spilaði og söng allskyns lög.

Og Sankti Pétur fagnaði og fylgdi honum inn.
Ég feginn er að sjá þig hérna, elsku Palli minn,
því englahörpuhljómsveitin hún hlýðir ekki baun
og þeir heimta vísitölu á yfirvinnulaun.“

Ég hef bara aldrei leitt að því hugann að Petra myndi deyja einn daginn ekki fremur en að Torfufellið hyrfi úr fjallahringnum. Sumt fólk gerir heiminn betri, já Petra gerði heiminn miklu betri. Róttæk í pólitík, fyrsti maí verður ekki samur þegar það vantar Petru með kröfuspjald „niður með auðvaldið“ sem hefði sómt sér vel á miðju rauða torginu í Moskvu.

Ég heyri í hug mér smitandi hlátur nú eða hermt eftir einhverjum. Síðustu samtöl okkar þar sem ég sagði þér frá bókinni „Skyggnilýsingar framliðina presta“ í himnaríki væri spilað á harmonikku alla daga. Kerskni og kolsvartur húmor „Nú fara þeir ekki einu sinni í mat harmonikku leikararnir?“ spurði Petra og hló.

Á dánarbeði þá lagði Petra á ráðin um að leggja upp í langferðir með fólkinu sínu, hugurinn skarpur sem bar þig hálfa leið til Ítalíu. Hvergi smeyk. „Ég hlæ framan í hætturnar,“ sagði Simbi í Lion King það var svipað með þig, kæra systir. Ekki veit ég hvernig það gerðist að þeir félagar krabbinn og dauðinn næðu að leika á þig. Ég var alltaf sannfærður um að þú hefðir betur í glímunni að þú myndir sleppa frá þessu.

Ef til vill hefur þú þurft að fara í mat eins og harmonikkuleikaranir í himnaríki og þeir félagar breytt uppröðun á taflborðinu á meðan.

Mér sýndist Tröllshöfðinn svona nikka til mín í samúðarskyni um síðustu helgi.

Með kærleika og söknuði,

Vilhjálmur Geir Kristjánsson og fjölskylda

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00