Fara í efni
Minningargreinar

Kara Guðrún Melstað

Mikill harmur var kveðinn að gömlu bekkjarfélögunum úr 6F 1979, Menntaskólanum á Akureyri, þegar fréttir bárust frá Þýskalandi af ótímabæru andláti Köru Guðrúnar Melstað. Hún var á margan hátt andleg og félagsleg þungamiðja bekkjarins okkar í þrjú ár og jafnan svo ung, fersk og björt í sinni að maður hafði á tilfinningunni að hún yrði eilíf. En sláttumaðurinn slyngi fer ekki í manngreinarálit og kærir sig kollóttan um verðleika og mannkosti.

Ég kynntist Köru fyrst í landsprófi í GA. Allir strákarnir voru skotnir í Köru, en eins og segir í Carmínu-grein um hana 1979: „ung var hún Elfráði gefin“ og hún ákvað ung að eyða ævinni með handboltakappanum snjalla sem seinna átti eftir að auðga F-ið líka. Kara sagðist hafa notið þeirra forréttinda í æsku að alast upp í stórfjölskyldu þar sem alltaf var samastaður hjá einhverjum ef einn hvarf á brott. Hún lærði því snemma það félagslega næmi og þá samkennd sem einkenndi hana jafnan síðan.

Út á við virtist Kara oft fjarhuga, „hnarreist og hnakkakerrt“, svo að enn sé vitnað í gömlu Carmínu-greinina. Ókunnugir gátu því fengið þá tilfinningu að hún væri ögn hrokafull og fjarræn; en ekkert var fjær sanni. Einlægari og tilfinningaríkari persónu var erfitt að finna. Réttlætiskennd hennar var líka við brugðið. Til hennar var ljúft að leita ráða við lausn á vandamálum, stórum jafnt sem smáum, og hún tók lífbrigðum tilverunnar með stóískri ró, blandinni platónskri trú á réttlæti, sannleika og jöfnuð. Í félagslífi bekkjarins var hún límið sem á endanum hélt öllu saman. Kara og Alli – og oft leit maður á þau sem eina lífræna heild fremur en tvo einstaklinga – voru lífið og sálin í F-inu. Þegar hún kenndi síðar við GA nýttust mannkostir hennar vel og hún var ákaflega vinsæll kennari.

Kara lét sér ekkert fyrir brjósti brenna. Hún tók brotsjóm lífsins með æðruleysi – en var jafnan til reiðu að rétta hjálparhönd og greiða veg réttlætisins. Því miður glataðist samband okkar flestra við Köru þegar þau Alli fluttu til Þýskalands og gerðu garðinn frægan þar. Í minningunni er eilíft sólskin og akureyrsk Lystigarðsblíða í kringum ímynd okkar af Köru – þessari einstaklega vel innréttuðu manneskju sem stráði réttvísi, einlægni og vináttu í kringum sig hvar sem spor hennar lágu. Blessuð sé minning hennar.

Fyrir hönd bekkjarfélaganna úr F-inu, MA,

Kristján Kristjánsson.

Rósa Antonsdóttir

Anna Dögg Sigurjónsdóttir skrifar
08. júní 2023 | kl. 06:02

Rósa Antonsdóttir

Aldís Dögg Hjaltalín skrifar
08. júní 2023 | kl. 06:01

Rósa Antonsdóttir – lífshlaupið

08. júní 2023 | kl. 06:00

Björg Finnbogadóttir

Óskar Magnússon skrifar
02. júní 2023 | kl. 21:00

Björg Finnbogadóttir

Bjarni Th. Bjarnason skrifar
02. júní 2023 | kl. 11:15

Björg Finnbogadóttir

Guðmundur Karl Jónsson skrifar
02. júní 2023 | kl. 11:00