Fara í efni
Minningargreinar

Indriði Úlfsson – lífshlaupið

Indriði Úlfsson fæddist á Héðinshöfða á Tjörnesi 3. júní 1932. Hann lést á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri 7. febrúar 2023.

Foreldrar Indriða voru hjónin Líney Björnsdóttir húsfreyja, f. 22.1. 1904 í Syðri-Tungu á Tjörnesi, d. 11.9. 1991, og Úlfur Indriðason, bóndi, hreppstjóri og oddviti, f. 27.11. 1904 á Ytra-Fjalli í Aðaldal, d. 27.3. 1996. Úlfur og Líney ólu einnig upp Jóhannes Þorstein Jóhannesson, f. 5.12. 1939, d. 8.6. 2021.

Indriði kvæntist 27. september 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Þórólfsdóttur, f. 29.1. 1939, frá Hraunkoti í Aðaldal. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Andrésdóttir húsfreyja, f. 28.11. 1896, d. 29.9. 1950, og Þórólfur Jónasson bóndi, f. 20.4. 1892, d. 13.1. 1969.

Börn Indriða og Helgu eru: 1) Úlfar Þór, viðskiptafræðingur og fyrrverandi útibússtjóri, f. 4.9. 1959, d. 19.11. 2017. Úlfar kvæntist Þórdísi Wíum, f. 4.11. 1960. Þeirra börn eru: a) Yrsa, f. 1985, unnusti hennar er Pétur Pétursson, f. 1982, þeirra sonur er Úlfur Högni, f. 2018. b) Hringur, f. 1991. c) Baldvin Narfi, f. 1994. d) Hrafnkell Úlfur, f. 1994, unnusta hans er Hjördís Björg Viðjudóttir, f. 1996. 2) Ingunn Líney, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Húsavík, f. 14.1. 1962. Ingunn er gift Ingvari Sveinbjörnssyni, f. 22.4. 1969. Þeirra börn eru: a) Helga Margrét, f. 1990. b) Ingibjörg Ósk, f. 1999.

Indriði ólst upp á Héðinshöfða á Tjörnesi en sem ungur maður fór hann í Kennaraháskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með kennarapróf árið 1953. Í kjölfarið starfaði hann sem skólastjóri í Tjörneshreppi og Reykjahverfi og síðar sem kennari við Barnaskóla Húsavíkur. Árið 1956 flutti Indriði til Akureyrar þar sem hann var kennari við Barnaskóla Akureyrar og síðar yfirkennari við sama skóla. Árið 1965 hóf hann störf sem skólastjóri við Oddeyrarskóla á Akureyri þar sem hann starfaði þangað til hann fór á eftirlaun árið 1995. Indriði sótti sér einnig menntun erlendis og fór meðal annars til Bandaríkjanna á Fulbright-styrk árið 1971 og árin 1973 til 1974 stundaði hann nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hann var einnig sýningarmaður í Borgarbíói á Akureyri frá árinu 1957 til ársins 1987. Ásamt því var hann virkur í ýmsu félagsstarfi í gegnum tíðina, meðal annars var hann ritstjóri blaðsins Heimili og skóli, í stjórn Kennarafélags Akureyrar, í stjórn Þingeyingafélagsins á Akureyri og í varastjórn Akureyrardeildar Rauða kross Íslands.

Indriði var afkastamikill rithöfundur og skrifaði fjölda barnaog unglingabóka, ásamt því að skrifa leikrit fyrir útvarp, sjónvarp og leiksvið. Fyrsta bók hans kom út árið 1967 og sú síðasta árið 1988. Árið 1984 hlaut hann Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir bestu íslensku barnabókina, Óli og Geiri.

Indriði og Helga bjuggu lengst af í Suðurbyggð á Akureyri ásamt því að verja miklum tíma á Héðinshöfða á sumrin og þegar eftirlaunaaldurinn tók við.

Útför Indriða Úlfssonar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag klukkan 14.00.

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00