Fara í efni
Minningargreinar

Guðný Erla Guðmundsdóttir

Guðný Erla Guðmundsdóttir - fædd  22.12. 1954 - dáin 05.09. 2022

Þegar ég hóf störf í Tónlistarskólanum á Akureyri haustið 2008 komst ég fljótt að því að notalegasti staðurinn í húsinu var á bókasafninu. Inni á kaffistofu voru iðulega miklar hitaumræður, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem höfðu gengið yfir þjóðina á haustmánuðum þess árs. Það varð því svo að oftar en ekki fann ég mig í þeim aðstæðum að hafa rölt inn á bókasafn á milli verkefna. Það var ekki hinn merkilegi tónbókakostur skólans sem dró mig þangað heldur frekar það að andrúmsloftið þar inni var notalegt og þægilegt. Ég skynjaði líka fljótt að sú yfirvegaða orka sem þar var að finna stafaði frá konunni sem sat við stóra skrifborðið í horninu á milli þess sem virtist vera fjöldinn allur af óskipulögðum nótnastöflum. Þetta var hún Erla og eftir því sem tíminn leið þá urðum við hinir mestu mátar. Viðmót hennar var alltaf notalegt, laust við dómgirni og æsing og ég komst að því að yfirvegað fas hennar var einn af jákvæðustu þáttunum í starfinu við skólann. Ég komst líka fljótt að því að þó svo að á yfirborðinu virtist vera töluverð óreiða á skipulagi bókasafnsins þá virtist Guðný Erla alltaf vita nákvæmlega hvar hlutina var að finna. Það var oftar en ekki sem ég sá einhvern samkennara hennar hlaupa inn á safnið, spyrja um fátítt tónverk og fylgdist svo með Erlu teygja hendina rólega inn í miðjuna á einum af stöflunum sem umkringdu hana við borðið, draga út rétta verkið og afhenda viðkomandi. Það sem leit út eins og óreiða var því ekkert nema fagurfræðilega útfært skipulag sem fæstir gætu skilið. Við vissum bara öll að þetta var allt í góðum höndum þó svo að við gætum ekki reynt að skilja það.

Erla var frábær kennari. Hún var einstaklega ljúf og góð við nemendur sína og fylgdi þeim í gegnum námið af kostgæfni og alúð. Henni var sérlega lagið að vinna með fólki sem þurfti mikinn skilning og umhyggju og það var afar fallegt að fylgjast með því hversu vel hún sinnti öllum þeim sem til hennar leituðu. Fyrir hópinn okkar var það því mjög þungbært þegar veikindi Erlu ágerðust og hún sá sér ekki annað fært en að láta af störfum hjá okkur. Það er alltaf leitt að sjá á eftir góðu samstarfsfólki en í hennar tilfelli var það meira en svo. Erla hafði unnið lengi við skólann og átti marga vini á meðal okkar.

Við minnumst hennar ekki einungis sem frábærrar fagmanneskju heldur einnig sem góðs og trausts vinar sem skilur eftir sig skarð sem ekki verður fyllt. Starfsfólk Tónlistarskólans á Akureyri hefur ákveðið að fella niður kennslu vegna útfararinnar og vottar fjölskyldu Guðnýjar Erlu sína dýpstu samúð vegna ótímabærs fráfalls hennar.

Kærleikskveðjur,

F.h. starfsfólks Tónlistarskólans á Akureyri

Hjörleifur Örn Jónsson,
skólastjóri

Elín Stephensen

29. september 2023 | kl. 06:00

Helgi Rúnar Bragason

Jana, Atli, Guðný og Kalli skrifa
11. september 2023 | kl. 10:30

Helgi Rúnar Bragason

Íþróttafélagið Þór skrifar
11. september 2023 | kl. 10:00

Helgi Rúnar Bragason – lífshlaupið

11. september 2023 | kl. 09:00

Bára Jakobsdóttir Ólsen

Gylfi Már Jónsson skrifar
06. september 2023 | kl. 06:03

Bára Jakobsdóttir Ólsen

Sigurbjörg María Bjarnadóttir skrifar
06. september 2023 | kl. 06:02