Fara í efni
Minningargreinar

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson

Sagt hefur verið að það sé ekki endilega fjöldi stunda sem maður eyðir með annarri manneskju sem skiptir mestu máli, heldur hitt, hversu mikil áhrif samveran hafði á manns líf. Sem dæmi: góður kennari getur varið tiltölulega stuttum tíma með nemendum sínum en samt haft umtalsverð áhrif á líf þeirra. Þegar ég horfi til baka eyddi ég stuttum tíma með Björgvini Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni en samt upplifi ég það svo að fáir hafi kennt mér jafn mikið á jafn stuttum tíma.

Ég var enn í menntaskóla þegar ég hlýddi í fyrsta skipti á Björgvin halda málflutningsræðu fyrir dómi. Mér er það enn minnisstætt hversu málflutningur hans var hnitmiðaður og fluttur af virðingu gagnvart dómnum og lögmanni gagnaðila. Nokkrum árum síðar fékk ég, laganeminn, að vinna fyrir Björgvin í sumarstarfi. Strax frá fyrsta degi voru verkefnin á lögmannsstofunni á Tjarnargötu fjölbreytt og margslungin. Sama hvað gekk á hélt Björgvin alltaf ró sinni. Hvert verkefni var krufið lið fyrir lið – rök skyldu ráða en ekki tilfinningar. Við alla skjalagerð kom framúrskarandi færni Björgvins í íslensku að góðum notum. Málalengingar og óþarfa flækjur fengu ekki rými þar eð öll textagerð skyldi vera markviss. Nákvæmni Björgvins við að leysa úr vandasömum réttarfarsatriðum var einnig til fyrirmyndar. Þegar sigur vannst í réttarsalnum eða leita þurfti andagiftar í skrifum voru veglegir vindlar dregnir upp og þeirra notið með hægðinni sem oft einkenndi Björgvin.

Björgvin var um sumt dulur maður. Eitt var þó alltaf ljóst. Á sumrin var spilað golf og það ekki lítið! Hinn sexfaldi Íslandsmeistari í höggleik glataði aldrei ástríðu sinni fyrir þessu vinsæla sporti. Man alltaf eftir einum áhugaverðum punkti sem Björgvin kom með en hann taldi sig vera heppinn að hafa fengið bakteríuna ungur þar eð þá réði hann betur við hversu mikill tími færi í golfið á meðan sumir kollegar í lögmannastéttinni, sem fengið hefðu bakteríuna á miðjum aldri, gætu alveg farið yfir strikið og nánast hætt að vinna!

Eftir að sumarvinnu minni fyrir Björgvin lauk hittumst við einstöku sinnum og aldrei varð maður fátækari að eiga í samskiptum við hann. Yfirsýn hans yfir málefni líðandi stundar og skarpskyggni var alltaf til staðar. Skarð er fyrir skildi að hann skuli vera fallinn frá. Ég kveð hann með virðingu og sendi nánustu aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Helgi Áss Grétarsson

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00