Fara í efni
Minningargreinar

Björg Finnbogadóttir

Mömmur eru ekki einstakar ellegar sérstakar, þær eru einfaldlega ALLT. Það er þessi strengur sem þær tengja sig við okkur í byrjun. Ein misheppnaðasta tilraun mannkynssögunnar er að klippa á þennan streng, naflastreng og telja þarmeð að tengslin séu rofin, virkar einfaldlega ekki. Við strákarnir losnum aldrei við hann. Nú fer næsta tilraun fram, dauðinn.

Mamma var forvitin, áhugasöm um málefni líðandi stundar en aðalatriðið var fólkið, einstaklingurinn, vinirnir, fjölskyldan - fólkið á bakvið fréttirnar. Það voru allir jafnir fyrir mömmu. Það er stundum talað um að menn misstígi sig í þeim rússibana sem lífsins ganga er, hjá mömmu hallaði aldrei á einn eða neinn. Hetjusögur sagðar af öllum, hið góða, hið magnaða í sögu hvers einstaklings var kallað fram. Allir voru hetjur, einstaklingurinn er góður.

Hafið, fiskurinn, markaðir, lífsbjörg Íslands og heimilanna var það sem líf mömmu snerist um. Foreldrar hennar, pabbinn skipstjóri og útgerðarmaður fóru illa út úr «heimskreppunni» og misstu sitt lífsviðurværi í verðfalli afurða og þegar markaðir lokuðust. Það hafa alltaf verið sveiflur í veiðum, markaðir farið upp og niður jafnvel s.k vinalönd okkar lokuðu fyrir markaðsaðgang á tímum átaka um yfirráðaréttinn yfir lögsögunni. Mamma kenndi okkur snemma að hagur þjóðar, heimilisins, sjómannsheimilisins sló í takt við heimsfréttirnar.

Sjómannsheimili er veröld þarsem verkaskiptingin er skýr, mamman sér um framkvæmdastjórn heimilisins, en um verðmat og lífsins gildi foreldranna er samstaða um. Langar mig að nefna dæmi sem skildi eftir djúp spor. Einörð afstaða foreldranna við útfærslu efnahagslögsögunnar var skýr en í næstu setningu vorum við minnt á hrikaleg áhrif á heimili sjómannsfjölskyldna í Hull, Grimsby, Cuxhaven og Bremerhaven. Sem krakki vildi maður því oft skipta um stefnu og leyfa veiðar erlendra aðila áfram, en þá var kúrsinn réttur. Fiskimiðin munu ekki þola það veiði áreiti, við köllum það sjálfbærni í dag, fiskurinn er þá allur og lífsviðurværi okkar myndi hverfa, virðingin fyrir s.k andstæðingum var mikil en á sama tíma einörð afstaða með Landi okkar og þjóð. Á sjómannsheimilinu lærðist því fljótt að í lífsins sjó þarf að taka erfiðar ákvarðanir.

Mamma hefur sennilega kosið flesta pólitíska flokka sem boðið hafa fram, sumir kalla það stefnuleysi. Ég kalla það þor, fólkið í forsvari flokkanna var það mikilvægasta, síðan þurfti jú stundum að rétta kúrsinn af og það þýddi að nýtt fólk þurfti að fá tækifæri, t.d framboð kvenna í íslenskum stjórnmálum. Íslandi hefur farnast vel með þessa kynslóð sem upplifði stöðugar breytingar, tók þátt í þeim, mótaði stefnuna í orði og æði og hafði stöðuga trú á unga fólkinu sem hafði menntunina og áræðnina í fararteskinu. Framtíðin var unga fólksins og gleðilegt var að sjá hvernig hún umgekkst fjórar kynslóðir með virðingu, áhuga og þekkingu á málefnum þeirra allra.

Það er lán að hafa átt þig að, takk fyrir allar stundirnar, margar eru minningarnar og myndirnar sem fara í gegnum hugann á þessum tíma. Ein stendur uppúr, það er fyrirmyndin, hún mun lifa, andinn þinn, gleðin og áræðnin munum við afkomendur þínir leggja okkur fram við að koma til skila til næstu kynslóða.

Dauðinn gerir nú aðra tilraun að slíta strenginn, sú tilraun er einnig dæmd til að mistakast, ég veit hann verður nú eins og nýsleginn kaðall um ókomna tíð.

Finnbogi Alfreð

Árni Björn Árnason

Juan Ramón skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Höskuldur Þórhallsson skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Tinna og Telma skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Sigurður Hermannsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
07. maí 2024 | kl. 11:00