Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið
Þórdís Þorleifsdóttir sem ávallt var kölluð Día fæddist í Hrísey þann 24. janúar árið 1936. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 10. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þóra Magnúsdóttir húsmóðir frá Streiti í Breiðdal (f. 1901, d. 1989) og Þorleifur Ágústsson útvegsbóndi og síðar yfirfiskmatsmaður, frá Felli á Ufsaströnd, norðan Dalvíkur (f. 1900, d. 1984).
Í Hrísey bjó Día á Miðbæ þar sem faðir hennar braut land og reisti fjölskyldu sinni bæ. Hún ólst upp með fjórum systkinum. Elst var Ragna, hjúkrunarfræðingur (f. 1929), síðan komu þau Ágúst dýralæknir (f. 1930, d. 2023), Magnús stýrimaður (f. 1932) og Torfhildur Júlíana ljósmóðir (f. 1939).
Þann 10. júní 1959 giftist Día Gunnari Þorsteinssyni vélstjóra (f. 1937). Börn þeirra eru
a) Þorsteinn G. Gunnarsson, blaðamaður og upplýsingafulltrúi (f. 1960). Eiginkona hans er Sigrún Aðalgeirsdóttir framhaldsskólakennari (f. 1960). Fyrri kona Þorsteins er Svanhvít Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur (f. 1961). Þeirra börn eru Lilja líffræðingur (f. 1982) og Ari Gunnar kvikmyndafræðingur (f. 1988). Dætur Lilju eru Þórdís Erla háskólanemi (f. 2004) og Vigdís Hrefna (f. 2013). Eiginkona Ara Gunnars er Lára Heimisdóttir minjavörður (f. 1988). Synir þeirra eru Egill (f. 2020) og Bragi (f. 2023).
b) Gunnar Þór Gunnarsson hjarta- og lyflæknir og dósent við HÍ (f. 1965). Eiginkona hans er Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir, dósent við HA (f. 1964). Börn þeirra eru Valgerður (f. 1991 d. 2001), Oddný Brattberg læknir (f. 1994) og Sóley Brattberg læknanemi (f. 2003). Sambýlismaður Oddnýjar er Gunnar Úlfarsson hagfræðingur (f. 1996) dóttir þeirra er Valgerður Brattberg (f. 2024).
c) Inda Björk leikskólastjóri (f. 1971). Fyrrverandi eiginmaður hennar er Guðni Hannes Estherarson (f. 1972). Börn þeirra eru Dagur, stuðningsfulltrúi og handboltaþjálfari (f. 2006) og Dagmar Júlíana framhaldsskólanemi (f. 2008).
Eftir að hafa verið einn vetur í unglingadeild í barnaskólanum í Hrísey fór Día í Stykkishólm og var þar einn vetur í miðskóla. Þriðja bekk gagnfræðaskóla lauk hún á Laugarvatni þar sem hún dvaldi á heimavist.
Día og Gunni, eins og eiginmaður hennar er iðulega kallaður, bjuggu fyrst á Eyrinni á Akureyri, í Grundargötu 3 og síðan Eyrarvegi 31. Árið 1964 fluttu þau norður fyrir á, í nýbyggða blokk við Skarðshlíð 40 og árið 1981 í einbýlishús sem þau reistu sér við Búðasíðu 3.
Ævistarf Díu var fyrst og fremst að vera húsmóðir og sjómannskona. Samhliða því vann hún ýmis störf, einkum við aðhlynningu, meðal annars hjá Félagsþjónustu Akureyrar, Sólborg, Dvalarheimilinu Hlíð og á Kristnesi.
Útför Díu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, þriðjudaginn 25. nóvember kl. 13.00.
Þórdís Þorleifsdóttir
Þórdís Þorleifsdóttir
Anna Jónsdóttir
Hallfríður Lilja Einarsdóttir