Fara í efni
Minningargreinar

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir (Dísa) var fædd í Innbænum á Akureyri 2. nóvember árið 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð 6. október 2021. Foreldrar hennar voru Ásgeir Kristjánsson verslunarmaður f. 15. ágúst 1891, d. 13. apríl 1985 og Jóna Sigurlaug Einarsdóttir húsmóðir f. 10. desember 1894, d. 6. október 1984. Fósturforeldrar Ásdísar voru Kristjana Jóhanna Kristjánsdóttir frá Álftagerði f. 12. ágúst. 1893, d. 14. desember 1973 og Jón Sigurðsson bóndi á Hofstöðum, f. 7. júlí 1889, d. 10. september 1958. Systkini Ásdísar :Guðmundur f. 13. júlí 1923, d. 26. mars 1983, Þóra f. 19. janúar 1925, d. 15. janúar 2017, Vilborg f. 21. október 1926, Hólmfríður f. 22. júní 1927, d. 23. maí 2021 og Karl f. 15. janúar 1933, d. 11. janúar 2019. Fósturbræður Ásdísar: Ásmundur Kristján f. 19. apríl 1936, d. 22. apríl 2014 og Guðmundur f. 31. október 1937, d. 22. júlí 2012.

Ásdís giftist, þann 7. október 1956, Friðriki Jóni Leóssyni frá Höfn á Svalbarðsströnd, f. 5. nóvember 1933, d. 21. maí 1995.

Börn Ásdísar og Friðriks:

1) Sonur andvana f. 25. maí 1957.

2) Soffía f. 2. júlí 1958, maki Stefán Gunnar Þengilsson f. 25. janúar 1954. Synir þeirra eru: 1) Ásmundur Gunnar f. 12. október 1975. Sambýliskona Eva Björk Haraldsdóttir f. 13. mars 1978. Börn hans eru Freydís Ósk f. 25. maí 1997, hennar sonur er Hákon Arnald Hákonarson f. 26. júní 2019. Sigríður Alma f. 25. desember 1997, Emilía Dana f. 19. maí 2001 og Símon Dreki f. 1. maí 2006. 2) Þengill f. 5. janúar 1977. Börn hans eru Kleópatra Thorstensen f. 25. júní 2000, Leonard Thorstensen f. 16. júlí 2004 og Viktoría Líf f. 14. nóvember 2006. 3) Friðrik Jón f. 3. september 1986. Maki Svandís Þóra Kristínardóttir f. 9. desember 1992. Börn hans eru Natalía Rós f. 6. júní 2006, María Elísabet f. 4. febrúar 2014 og Stefán Örn f. 4. júlí 2015.

3) Kristjana f. 17. júlí 1959, maki Sigurður Steingrímsson. Dætur þeirra eru Ásdís f. 25. janúar 1983. Hennar dætur eru Freyja f. 26. júlí. 2009 og Iðunn fædd 2. janúar 2011. Hugrún f. 8. janúar 1997, maki Magnús Örn Sigurjónsson f. 19.03.1995.

4) Steinþór f. 9. febrúar 1963, maki: Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir f. 3. janúar 1969. Dætur þeirra eru Alexandra Dögg f. 19. júní 1991, maki Styrmir Dýrfjörð f. 25. janúar 1990, Andrea Sif f. 24. júlí 1995 og Amanda Eir f. 6. desember 2006.

5) Hildur Petra f. 2. desember 1966 . Börn Hildar Petru eru: 1) Linda fædd 12. mars 1987, maki Heiðar Örn Ólafsson f. 27. desember 1976. 2) Vilhjálmur Heimir f. 17. apríl 1989 og 3) Steinþór Orri f. 26. júlí 1997.

6) Jóna Sigurlaug f. 27. ágúst 1969, maki Gunnar Egilsson f. 14. desember 1966. Börn Jónu af fyrra hjónabandi eru 1) Helga Margrét f. 15. mars 1990, maki Helgi Garðar Helgason f. 13. mars 1989. Börn þeirra eru Lea Berglind f. 28. desember 2019 og Haraldur Logi f. 7. apríl 2021. Dóttir Helga Garðars er Tinna Lind f. 16. júní 2005. 2) Leó f. 15. desember 1991. Dóttir hans er Ester Jóna f. 28. janúar 2015. 3) Ómar Berg f. 26. júlí 1996, maki Karen Hrund Kristjánsdóttir f. 29. nóvember 2001. Sonur þeirra er Adrían Berg, f. 9. september 2017. 4) Kristrún f. 14. janúar 1998, maki Bjarni Magnús Erlendsson f. 23. desember 1995.

Um þriggja ára aldur fluttist Dísa með fjölskyldu sinni í Oddeyrargötu 22. Á þeim tíma hafði lítið verið byggt á Brekkunni og Dísa gat leikið sér í móunum fyrir ofan heimili sitt; með horn, leggi og völur.

Fimm ára gömul var hún send í fóstur á bæinn Hofstaði í Mývatnssveit. Þar var óvenju stór torfbær en viðbrigðin voru þó mikil frá bjarta og rúmgóða steinhúsinu á Akureyri. Á Hofstöðum var bærinn lýstur upp með olíulömpum. Fjósið var undir baðstofunni, eins og oft tíðkaðist, og veitti heimilisfólkinu yl á köldum dögum.

Dísa hafði alla tíð mjög litla sjón og sá aðeins í svart-hvítu. Hún var það sem kallast „lögblind“. Þrátt fyrir það, var hún á Hofstöðum þegar sett í verk hinna fullorðnu. Innandyra eldaði hún, spann og óf með kvenfólkinu og sandskrúbbaði gólfið reglulega. Úti sinnti hún heyvinnu og skepnuhirðingu með karlmönnunum. Það var hennar verk að sækja vatnið í bæjarlækinn sem var dágóður spölur. Bar hún það heim í skjólum og notaði við það ok.

Dísa var fljót að læra til verka og henni þótti aldrei leiðinlegt að vinna. Hún fékk því sífellt meiri ábyrgð. Hún sá til að mynda alfarið um fósturbræður sína tvo, Ásmund og Guðmund, annan ársgamlan og hinn tveggja og hálfs árs, þegar hún sjálf var einungis tíu ára gömul. Bræðurnir á Hofstöðum voru henni ávallt mjög kærir og hélt hún alla tíð góðu sambandi við „strákana sína“.

Eins og Dísa sagaði sjálf, þá var hún afdalabarn. Engir jafnaldrar voru á bænum og fáir á bæjunum í kring. En þegar hún fór í barnaskóla hitti hún aðra krakka og þá var endalaust glens og gaman. Á unglingsaldri var stöku sinnum fenginn lánaður hestur til að fara að hitta vinina og spjalla. Einstöku sinnum var dansað, og á veturna var farið á skíði og skauta.

Um tvítugt fór Dísa í Laugaskóla í Reykjadal. Hún var góður námsmaður og mjög fróðleiksfús. Í Laugaskóla var hún í þrjá vetur og lauk þaðan landsprófi árið 1951. Þá lá leiðin til Akureyrar þar sem hún var í vistum hér og þar, en fór því næst að vinna í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri og líkaði það mjög vel.

Á Akureyri kynntist Dísa, á balli, ungum fallegum dreng sem hún samþykkti að dansa við. Í dansinum smellti ungi maðurinn á hana kossi og eftir það var ekki aftur snúið. Þetta var að sjálfsögðu Friðrik (Gói í Höfn), og líklegt þykir að hann hafi aldrei gerst eins frakkur á ævi sinni, hvorki fyrr né síðar. Þau Dísa og Friðrik giftu sig 7. október 1956 og hófu búskap í Höfn á Svalbarðsströnd. Á heimilinu bjuggu þá einnig fósturforeldrar hans, Steinþór og Soffía og Dísa annaðist þau síðustu æviár þeirra, samhliða bústörfum og barneignum.

Friðrik varð bráðkvaddur 21. maí 1995, en hann hafði verið heilsuveill um nokkurra ára skeið. Við þetta áfall, sem önnur á lífsleið Dísu, kvartaði hún aldrei og tók öllum raunum af æðruleysi.

Dísa tók gjarnan að sér fósturbörn í lengri eða skemmri tíma. Það þótti eðlilegt að það væru allt að tíu manns í heimili. Þó þröng væri á þingi var samt alltaf nóg pláss, og þótt þröngt væri í búi virtist alltaf vera til nægur matur handa öllum. Dísa var til dæmis snillingur í að reiða fram dýrindis kræsingar úr afgöngum. Hún tók vel á móti öllum sem komu í Höfn - nema kannski fyrsta tengdasyninum; sem segir hana hafa stökkt sér á flótta með sóp í hendi og elt sig upp hálfa heimreiðina.

Seinna meir áttu þessi tvö eftir að fara á vélsleða saman af og til. Já, Dísa hafði mjög gaman af því, hún hallaði sér hárrétt í allar beygjur og vildi helst fara sem hraðast. Einnig elskaði hún að sitja í bíl og horfa á sjóndeildarhringinn – því hann gat hún séð. Og henni leiddist ekkert þegar vel var slegið í fákinn.

Já, Dísa var létt í lund og þolinmóð. Hún hafði alltaf tíma til að hlusta á það sem börnum hennar og barnabörnum lá á hjarta. Hún hélt þessu góða skapi til dánardags og það var alltaf gaman að heimsækja hana. Hún var ávallt til í að taka lagið og kunni ógrynni af söngtextum og vísum.

Hún elskaði börn og allt ungviði og átti sér þann draum heitastan að verða ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur eða kennari.

Börnin og barnabörnin nutu góðs af natni hennar, velvilja og ósérhlífni. Spilin sem hún hefur spilað við afkomendur sína eru fleiri en hár í gæru og lítrarnir af mjólkurgraut sem hún hefur eldað gætu eflaust fyllt sundlaug, og það fleiri en eina! Hún framleiddi einnig lopapeysur á færibandi sem hún seldi flestar til „Sigga Gumm“ á Akureyri.

Hún var sífellt að máta hálfrakar nýpressaðar peysurnar á börnin sín; þeim til mikils ama - vægt til orða tekið. En ef einhvern vantaði peysu, sokka eða vettlinga hristi hún þetta fram úr erminni eins og ekkert væri. Allar uppskriftir og mynstur kunni hún utan að og hún þurfti aldrei annað en að rétt líta á viðkomandi, og rétta stærðin var í höfn. Svona var þetta einnig með alla texta og lög; allt lært utan að á mettíma.

Vegna sjóndeprunnar hafði Dísa sérlega góða heyrn og gott lyktarskyn, eitthvað sem kom afkomendum hennar oft í bobba …

Í Höfn er brattur stigi upp á loftið, þar sem allir sváfu. Stiginn er úr timbri og brakar vel í hverri tröppu. Börnin lærðu því öll af reynslunni, að stíga á rétta staði á þrepunum, til að ekki heyrðist þegar þau laumuðust upp á loft þegar þau komu seint heim á kvöldin.

Dísa var mjög félagslynd. Hún starfaði með Kvenfélagi Svalbarðsstrandar um áratuga skeið og var gerð að heiðursfélaga þar 10. mars 2004. Hún söng í kirkjukór Svalbarðsstrandar í áratugi og um tíma söng hún einnig í kvennakórnum Lissý. Þá var Dísa einnig dyggur stuðningsaðili og félagi í Blindrafélaginu, og sótti einnig spilavistir eins oft og hún mögulega gat.

Dísa var vinamörg og vel liðin í sveitinni. Hún var líka alltaf til í að hjálpa öðrum, eftir því sem geta hennar og aðstæður leyfðu. Hún fór á öllum tímum sólarhrings ef hringt var í hana í sauðburðinum. Hún var lambaljósmóðir Suður-strandarinnar og var mjög gifturík í því starfi. Heima fyrir þurfti nánast aldrei að hjálpa lambá og hún lagði ríka áherslu á að ala ekki undan þeim ám sem illa gekk að bera.

Og Dísa hafði ýmis bjargráð, til að auðvelda sér störf sín. Hún kallaði á kindurnar heim á kvöldin í stað þess að smala þeim. Og þá komu þær heim að fjárhúsum í einfaldri röð. Hún þvoði leirtauið yfirleitt með berum höndum til að finna að það væri vel gert. Á eldavélinni og þvottavélinni taldi hún smellina, til að finna rétta stillingu.

En það fór líka ýmislegt úrskeiðis hjá Dísu.

En hún hafði mikinn húmor fyrir sjálfri sér og hló manna mest að hnökrum sínum og óförum, t.d. þegar henni var bent á að hún væri komin með barminn ofan í matardiskinn sinn, sem gerðist all oft, þegar sokkapör fjölskyldunnar voru í ósamstæðum lit, eða hún mætti nokkrum klukkustundum of snemma út á veg til að fara í vinnuna; af því hún hafði litið vitlaust á klukkuna.

Dísa var heimavinnandi til ársins 1977 en hóf þá störf á Alifuglabúinu Fjöreggi. Þar vann hún um árabil en flutti sig um set yfir á Kjötiðnaðarstöð KEA; og var þar fram að starfslokum. Í áraraðir vann hún einnig á haustin í vambakompunni á sláturhúsi KSÞ á Svalbarðseyri.

Árið 2013 greindist Dísa með alzheimer-sjúkdóminn og smáæðakölkun í heila. Hún bjó síðustu átta ár ævi sinnar á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð; þar sem hún lést 6. október síðastliðinn. Hún kvaddi þennan heim eins og hún hafði lifað lífinu; fallega og virðulega, í ástríkum faðmi fjölskyldu sinnar.

Fjölskyldan öll syrgir góða konu og kveður nú móður og ömmu í kærleika og með þökk fyrir allt það ástríki, hlýju og gleði sem hún gaf henni með lífi sínu. Hún var, og verður alltaf, fyrirmynd okkar fyrir styrk sinn, þrautseigju, greind og jákvæðni. Fyrir að vera alltaf til staðar og fyrir að kenna okkur ósérhlífni og bjargráð í skóla lífsins.

Við þökkum öllum auðsýnda samúð og hlýhug og sérstakar þakklætiskveðjur sendum við starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð fyrir góða umönnun.

Sossa, Didda, Manni, Hildur Petra og Jóna Sigurlaug Friðriksbörn.

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00