Fara í efni
Minningargreinar

Árni Björn Árnason

Afi.

Við stöndum efst í Strýtunni og yfir Eyjafirðinum trónir Kaldbakur í vetrarklæðum og vakir yfir Grenivík. Það er kalt og frosnir fingur lauma sér í lófa afa sem rúllar þá af krafti á milli handa sér. Við rennum af stað, það er gott færi, sólin kyssir hvíta toppana og við heyrum rödd afa segja taktfast; stíga í ytra skíðið. Stíga, stíga. Þannig leiðbeindi afi okkur niður brekkur fjallsins. Og lífsins. Með hlýju, kímni og góðu dassi af stríðni.

Hjá afa var alltaf skjól sem hægt var að leita í. Hvort sem var í erfiðri prófatíð eða ástarsorg unglingsáranna. Afi bauð alltaf hlýjan faðm og hressti mann við með góðum sögum á meðan hann reykti í rólegheitum, smurði vænni klípu af smjöri á tekex, jafnvel á randalínu og sötraði bleksterkt kaffi úr bláa bollanum. Með minnst fjórum skeiðum af sykri í.

Bílferðir með afa voru órjúfanlegur hluti af tilverunni. Grenivíkurrúntar á æskuslóðir og afrekssögur úr barnæsku ásamt ævintýraferðum í fjöruna fögru. Fallegu steinana úr Grenivíkurfjörunni eigum við til minningar um það. Hann gaf sér alltaf tíma til að vera afi okkar. Galdraði fram stærðarinnar hús úr saltstöngum bara til að koma okkur á óvart og handskrifuð myndskreytt bréf birtust eitt af öðru í póstkassanum í sveitinni. Með sögum um sólmyrkva og flugvélina sem festist í skýjunum og afi þurfti að moka lausa.

Afi kunni að segja sögur og skapa með okkur skemmtilegar minningar. Hann hafði einstakt lag á að breyta gráti í hlátur og búa til skemmtisögur úr hrakförum okkar og skapgerð. Hló oft og mikið að því þegar Tinna tók tryllingskast í lausafönninni í fjallinu og kastaði skíðunum á undan mér niður alla brekkuna eða þegar Telma lærði snarlega að ef maður getur ekki komið sér í skíðaleppana á réttum tíma þá verður maður einfaldlega skilinn eftir. Hann minnti okkur á þessar stundir reglulega og gaf Telmu, ein jólin, bókina, Á morgun segir sá lati, með glott á vör. Þá benti hann okkur oft og iðulega á músaganginn í eldhússkápunum þegar mylsnuslóðin kom upp um kexstuld okkar systra.

Við rennum okkur niður fjallið undir dagslok með freknur og sólkyssta vanga. Alla leið niður úr á meðan afi rúntar rólega og hvetjandi við hlið okkar. Þegar heim er komið eldar afi fiskibollur í dós í rótsterkri karrýsósu. Leyniuppskrift sem ekki verður uppljóstruð hér. Hinn fullkomni dagur er á enda.

Við munum sakna símtalanna frá afa sem voru ófá. Um allt og ekkert. Heima og geima. Börnin og veðrið og bátana, alla bátana og golfið. Hvað sem á daga hans og okkar dreif. Stórt sem smátt. Og stundum bara til að gera boð á undan sér. „Helltu upp á kaffi. Ég er á leiðinni. Og hafðu það sterkt. Svo sterkt að hægt sé að skera það.“

Fallegi góði afi okkar. Við elskum þig meira en jörðina, sólina, tunglið og stjörnurnar og gleymum aldrei, eins og þú kenndir okkur svo vel, að sólin kemur alltaf upp að nýju.

Þú lifir í okkur.

Þínar afastelpur,

Tinna og Telma

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00