Fara í efni
Minningargreinar

Árni Björn Árnason

Ég kynntist Árna Birni fyrir 30 árum. Í fyrstu heimsókn minni til Íslands, þegar ég kom með Laufeyju til Akureyrar, horfði hann hvorki í augun á mér né talaði beint til mín. Ég held að hann hafi vantreyst þessum dökkeyga suðræna manni sem hafði borið dóttur hans á brott og hélt henni fangaðri í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

Síðar, í minni annarri heimsókn, nýtti ég mér fjarveru Laufeyjar, horfði beint í augu hans og sagði honum að efast ekki um að ég myndi alltaf koma vel fram við dóttur hans. Frá þeirri stundu breyttist allt. Það var upphafið að einlægu sambandi sem var fullt virðingar, vináttu og ástúðar sem varað hefur óslitið til dauðadags. Ég er enn mjög stoltur af því að hafa áunnið mér traust hans.

Hann heimsótti okkur nokkrum sinnum til Spánar þar sem við ferðuðumst með honum um norðurhluta landsins. Keyrslan var okkar sameiginlega áhugamál. Ég ók með honum þúsundir kílómetra, marga á Spáni á ógnarhraða og marga aðra á Íslandi, þar sem hann gaf mér landslag og ótal sögur. Ég held að ég geti státað af því að vera sá eini sem hann bauð óumbeðinn að keyra Carismuna sína, heiður sem ég ekki mun gleyma. Ég mun heldur aldrei gleyma gagnkvæmu trausti okkar og einlægni í öllum efnum og undir öllum kringumstæðum, sérstaklega þegar við vorum einir, þar sem við töluðum hreint og beint á einfaldri ensku. Ég var líka alltaf glaður að geta kastað á hann kveðju og séð hann frá Madrid á tölvuskjá konunnar minnar á morgnana.

Þegar við Laufey giftum okkur í Laufási árið 1998 komu margir vinir okkar frá Spáni og við ferðuðumst nánast um allt Ísland á meðan við brölluðum hitt og þetta þar sem Árni Björn tók þátt í öllu. Við fórum t.d. í hestaferð þar sem ég féll af baki, óvanur sérkennilegum gangtegundum íslenskra hesta. Ég lá hreyfingarlaus á jörðinni í nokkrar mínútur eftir fallið og mun aldrei gleyma svipnum á andliti tengdaföður míns þegar hann kom til að hjálpa mér að standa upp. Augu hans virtust segja: „Þau bara voru að giftu sig og ég er strax búinn að missa tengdasoninn.“ Hann var ekki svo heppinn! Árin hafa liðið og við höfum deilt mörgum gleðistundum, nokkrum sorgarstundum líka og ég man ekki eftir að hann hafi nokkurn tíman sagt við mig illt orð. Þó ég ætti ekki skilið hversu almennilegur og góður hann var við mig verð ég alltaf þakklátur fyrir okkar samband.

Við munum ekki lengur reykja Winston-sígaretturnar hans saman, ekki heldur mínar, sem hann kallaði fjallaloft. Hann mun ekki lengur sýna mér firðina, fjöllin og árnar. Við munum ekki lengur keyra á 200 km hraða á spænskum þjóðvegum. Allt hverfur og ekkert stendur eftir, nema í minningunum. Árni, ég á eftir að sakna þíns breiða hláturs, hreinu augnanna þinna, góðvildar þinnar, visku þinnar og okkar leynilega bróðurþels. Þú munt aldrei flýja úr minningu minni né frá ást minni.

Juan Ramón

Kári Árnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00

Kári Árnason

Jón Ingvi Árnason skrifar
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason

Elva, Katrín og Erna Káradætur skrifa
19. júlí 2024 | kl. 09:00

Kári Árnason – lífshlaupið

19. júlí 2024 | kl. 08:55