Radio Luxembourg var dýrmæt útvarpsstöð

þeirra sem hóf leikinn með Ingimari í Sjallanum. Frá vinstri: Finnur Eydal, Helena Eyjólfsdóttir, Hjalti, Ingimar,
Þorvaldur Halldórsson og Bjarki Tryggvason.
TÓNDÆMI – 26
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Hljómsveit Ingimars Eydal var þekkt fyrir að bjóða upp á nýjustu og vinsælustu erlendu lögin hverju sinni á dansleikjum í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri – Sjallanum – á sjöunda áratug aldarinnar sem leið, mun fyrr en hljómsveitir á Reykjavíkursvæðinu.
Friðrik Bjarnason, gítarleikari hljómsveitarinnar síðari hluti sjöunda áratugarins, átti forláta Sony TC-500 segulbandstæki og Radionette útvarpstæki og kom sér upp öflugu loftneti, til þess að ná útsendingum Radio Luxembourg. Stöðin sendi á sunnudagskvöldum út þátt með tuttugu vinsælustu lögum vikunnar og hann tók Friðrik upp.
Friðrik Bjarnason, gítarleikari hljómsveitar Ingimars Eydal síðari hluta sjöunda áratugarins.
„Við vorum reyndar að spila í Sjallanum á sunnudagskvöldum en þar sem ég átti heim í næsta nágrenni skaust ég heim og setti á upptöku og hélt síðan áfram að spila meðan upptökutækið meðtók vinsælustu lögin þá vikuna. Á næstu æfingu hlustaði hljómsveitin síðan á upptökuna og ákvað hvaða nýju lög skyldi taka inn á efnisskrána,“ sagði Friðrik í samtali fyrir nokkrum árum.
Akureyri og London!
Friðrik segir Útvarp Reykjavík yfirleitt hafa tekið sömu lög til spilunar mörgum mánuðum eftir að hljómsveit Ingimars hætti að spila þau á böllum! „Lagalistinn hjá okkur var þannig í takti við það sem þekktist í London, háborg dægurtónlistarinnar, því okkur var það mikið metnaðarmál að spila alltaf allra nýjustu lögin og þetta vakti mikla athygli á hljómsveitinni. Við heyrðum af fólki sem hafði verið úti í Englandi og keypt þar plötur og hlustað á nýjustu tónlistina í útvarpi. Það kom síðan til Reykjavíkur og heyrði þar gamla tónlist á böllum en í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri fékk það hins vegar nýjustu lögin frá Bretlandi beint í æð. Þetta þótti stórmerkilegt.“