Músíkfjelag Akureyrar hafði háleit markmið

TÓNDÆMI – 36
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Músíkfjelag Akureyrar, sem stofnað var 8. ágúst 1922, hafði þann tilgang „að efla framfarir á öllum þeim sviðum, er snerta söng- og músíkmentir á Akureyri og Norðurlandi. Sjerstaklega vill fjelagið láta sjer ant um að efla heimilismentun í þessum listum,“ eins og sagði í fundargerð stofnfundarins og í lögum félagsins.
Félagið stofnaði tónlistarskóla og stofnendur höfðu háleit markmið, meðal annars að koma einnig á fót hljómsveit.
Tilgangi sínum hugðist félagið ná þannig:
- Fjelagið heldur úti skóla fyrir Akureyri og Norðurland, þar sem fyrst um sinn sjeu kendar 3 námsgreinir: 1) pianospil fyrir byrjendur og lengra komna, 2) Listsöngur, 3) Músíkfræði (Musikteori). Ef efnahagur fjelagsins leyfir og aðsókn reynist nægileg, skal bætt við kenslu í orgelspili og fíólínspili. Auk þess veitir skólinn, þeim sem óska að kynna sjer nútíma aðferðir í músíkkennslu, tækifæri til að fá tilsögn og æfingu í þeirri grein.
- Fjelagið ræður kennara þá, sem nauðsynlegir eru til þess að kensla við skólann fari sem best fram.
- Fjelagið annast um, eftir megni, að koma upp nótnabókasafni við hæfi músíkskólans og stuðlar að því að fá til skólans góð hljóðfæri til kenslu og listiðkana.
- Fjelagið gen[g]st fyrir því að koma upp æfðum söngflokk meðal bæjarbúa. Jafnframt styður fjelagið, eftir megni, alla viðleitni, sem stefnir í þá átt að efla gott músíklíf í bænum.
- Fjelagið gengst fyrir því, að haldnar verði nokkrar opinberar söng- og músíkskemtanir á vetri hverjum hjer í bænum.
- Sjerhver fjelagsmaður skal hafa ókeypis aðgang að þeim söng- og músíkskemtunum eða þeim fyrirlestrum um þessi efni, sem haldnir verða innan fjelagsins á vetri hverjum. Hver fjelagsmaður hefir auk þess aðgang fyrir einn gest á fjelagskvöld gegn kr. 0,25 gjaldi hvert kvöld. Fjelagskort gilda sem aðgöngumiðar á fjelagskvöldin. Utanfjelagsmönnum, sem ekki koma á einhvern hátt í skjóli fjelagsmanna, er ekki leyfður aðgangur að fjelagskvöldum. Þó skal stjórn fjelagsins heimilt að gefa út aðgöngumiða, sem þeir fjelagsmenn, sem kynnu að óska þess, geta keypt fyrir kr. 2,00 pr kvöld handa gesti.
Fram kemur að árgjald skuli vera 30 krónur.
Í 4. grein laga, sem samþykkt voru á stofnfundinum kemur fram að stjórn „fjelagsins skipa 5 menn: formaður, framkvæmdastastjóri, ritari og og 2 gjaldkerar.“
Í fundargerð stjórnar 29. nóvember 1922 kemur fram að félaginu hafi borist símskeyti frá Jóni Leifs, tónlistarfræðingi í Halle í Þýskalandi, þess efnis að hann gæti útvegað „frábæran píanista“. Samið hafði verið við Þjóðverja, en einhverra hluta vegna brást hann. Því sneri framkvæmdastjórinn sér m.a. til Jóns „um útvegun á vel hæfum manni í Þýskalandi til forstöðu skólans, og sje símskeytið síðasti árangur þeirrar málaumleitunar.“
Einnig kemur fram að framkvæmdastjóri félagsins hafi snúið sér til „firma í Þýskalandi viðv. kaupum á nótum og hljóðfærum og hafi honum borist verðlistar yfir hvort tveggja.“ Hægt sé að fá hljóðfæri í Hamborg, frá bestu verksmiðju í Þýskalandi, fyrir 1.200 krónur „hingað komið“ eins og segir þar.
Í skeyti til Jóns Leifs segir: „Músikfjelagið gefur yður ráðningarheimild á grundvelli laga fjelagsins. Ábyrgist kr 600,00 mánaðarlega frá 1. febr. til 31. maí. Árleg ráðning væntanleg framvegis.“
Undir fundargerðina skrifa: Geir Sæmundsson vígslubiskup, formaður, Vernharður Þorsteinsson, Kristján Matthíasson og Sig. Ein. Hlíðar.
Þýski píanistinn sem ráðinn var skólastjóri hét Kurt Häser og síðar voru ráðnir tveir að auki, fiðlu- og organkennarar, að því er segir í söngmálablaðinu Heimi haustið 1923.
Tónlistarskóli Músíkfjelagsins varð ekki langlífur. Hann var lagður niður árið 1924.