Naglbítarnir – Nafnið var viðskiptalegs eðlis!

Hljómsveitarnafnið 200.000 naglbítar varð til áður en þrír akureyrskir unglingspiltar tóku þátt í Músíktilraunum árið 1995. Áður höfðu þeir notast við nöfnin Gleðitríóið Ásar og Askur Yggdrasils, auk þess að kalla sig Alias Bob í stuttan tíma.
Í tríóinu voru Axel Árnason trommari, gítarleikarinn Vilhelm Anton Jónsson og Kári bróðir hans, sem lék á bassa. „Það var pabbi okkar Kára sem stakk upp á nafninu. Hann var í hljómsveitinni Randver í Hafnarfirði í gamla daga og sá hópur hafði víst notað þetta nafn einhvern tíma þegar hann lék á Kleppi!“ sagði Vilhelm Anton – alltaf kallaður Villi naglbítur – þegar hann rifjaði þetta upp fyrir nokkrum árum.
Endanlega var ákveðið að kalla tríóið 200.000 naglbíta þegar Pétur Þorsteinsson, skólastjóri á Kópaskeri og vinur föður bræðranna, lofaði því að ef nafnið yrði fyrir valinu myndi hann kaupa eitt eintak af öllu sem þeir félagar gæfu út í framtíðinni. Ákvörðun var því í raun viðskiptaleg!
„Þannig hittist líka á að ég var að lesa Atómstöðina eftir Halldór Laxness á þessum tíma. Þaðan er nafnið komið, þannig að allt small einhvern veginn saman,“ sagði Villi.
Bræðurnir Vilhelm Anton og Kári Jónssynir á tónleikum 200.000 naglbíta og Lúðrasveit verkalýðsins í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Fyrstu skref sín í tónlistarheiminum steig Vilhelm Anton þegar Axel Árnason bauð honum í hljómsveit í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. „Þá hættu reyndar allir hinir og fyrst við vorum bara tveir eftir ákvað ég að tala við Kára bróður og hann var settur á bassa. Axel kunni á trommur, ég kunni gítarsólóið í White Room með Cream svo við keyptum bassa handa Kára, þótt hann kynni ekkert. Þetta var dæmigerð byrjun á hljómsveit!“
Tríóið gat út kassettu í nafni Asks Yggdrasils 1993, þegar Villi var 15 ára. „Pabbi tók lögin upp í Dynheimum og við seldum bekkjarsystkinum okkar kassetturnar. Vorum svo gráðugir að við skildum ekki einu sinni eftir eintök handa okkur sjálfum. Sungum mjög pólitíska texta á ensku, ádeilu á morð götubarna í Rio de Janero, á mansal og þrælahald og fleira í þeim dúr. Þetta voru reiðir ungir menn, sem vildu gera heiminn betri.“
Naglbítarnir urðu í þriðja sæti Músíktilrauna og Villi var valinn besti söngvarinn. Í kjölfarið fylgdu þrjár hljómplötur á fimm árum sem urðu vinsælar og rokkararnir voru ekki þagnaðir heldur gáfu út plötu með Lúðrasveit verkalýðsins nokkrum árum síðar. Og þeir eru enn að. „Við komum reyndar ekki oft fram en hittumst reglulega, semjum mikið og æfum. Við hættum aldrei, en það væri synd að segja að við værum duglegir...“ sagði Vilhelm Anton fyrir nokkrum árum.
Axel Árnason trommaði á tveimur fyrstu plötu Naglbítanna en eftir það settist Benedikt Brynleifsson við trommusettið og situr þar enn.