Öll tónlist Hafliða vönduð og þrautunnin

TÓNDÆMI – 41
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast á miðvikudögum._ _ _
Hafliði Hallgrímsson, sem fæddist á Akureyri 1941, hefur lengi verið búsettur í Bretlandi. Hann hefur átt fjölbreyttan og viðburðaríkan feril, bæði sem sellóleikari og tónskáld og var til dæmis um árabil fyrsti sellóleikari Skosku kammersveitarinnar. Síðustu áratugi hefur hann nær alfarið sinnt tónsmíðum.
Guðmundur Óli Gunnarsson, lengi aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, fór þess á leit við Hafliða að hann semdi verk fyrir hljómsveitina í tilefni vígslu menningarhússins Hofs árið 2010 og tónskáldið lét til leiðast.
„Hafliði er líka myndlistarmaður og verk hans afskaplega fíngerð. Það einkennir allt sem Hafliði gerir og þar með tónlistina; allt sem hann lætur frá sér er vandað og þrautunnið, hugsað niður í smæstu smáatriði,“ sagði Guðmundur Óli á sínum tíma.
Fínleiki einkennir verkið
„Ég hafði samband við Hafliða af því að mér fannst einboðið að nú væri tækifæri til að fá hann til að skrifa verk fyrir hljómsveitina, sem flutt yrði við vígslu Hofs. Mér fannst við hæfi að fyrstu tónarnir af þessu tagi sem hljómuðu í húsinu yrðu hans. Hafliði sagðist í fyrstu ekki vera þannig tónskáld; ég veit að hann fer ekki um með lúðrablæstri og látum, en verk við hátíðaropnun þarf ekki endilega að vera þannig. Svo var það dálítið seinna þegar ég var með hross einhvers staðar úti í móa í Svarfaðardalnum að síminn hringdi: Hafliði var búinn að hugsa málið betur og hafði komist að þeirri niðurstöðu að tilefnið væri slíkt að hann gæti eiginlega ekki skorast undan því að gera eitthvað.“
Guðmundur Óli gladdist mjög og ekki síður þegar hann fékk verkið í hendurnar. „Hafliði er í viðkynningu mjög prúður og kurteis, afskaplega vandaður maður, og þannig er tónlist hans einnig. Nálgun hans á verkefnið var mjög skemmtileg og mér finnst synd að verkið hafi ekki heyrst oftar. Það sem einkennir verkið helst er fínleikinn, tónmál Hafliða er persónulegt, en tónlist hans er ekki hefðbundin í neinum skilningi,“ sagði hljómsveitarstjórinn í samtali við höfund þessarar greinar um það bil áratug eftir frumflutninginn.
Guðmundur Óli Gunnarsson og Hafliði Hallgrímsson eftir frumflutning verksins Hymnos op. 45 við vígslu Hofs 28. ágúst árið 2020. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hátíðlegt og tignarlegt vígsluverk
Menningarhúsið Hof á Akureyri var formlega tekið í notkun 28. ágúst 2010 við hátíðlega athöfn. Við upphaf samkomunnar lék Sinfóníuhljómsveit Norðurlands verkið Hymnos op. 45 eftir Hafliða.
Hafliði sagði að markmiðið hafi verið að semja hljómsveitarverk sem væri í eðli sínu bæði hátíðlegt og tignarlegt en kæmi samt víða við og gæfi hljómsveit og hljómsveitarstjóra tækifæri til að njóta sín sem best.
„Fyrsta verkið á efnisskránni var nýtt verk, Hymnos eftir Hafliða Hallgrímsson. [ ... ] Hymnos (gr.) þýðir lofgerð og ætla má að verkið sé að einhverju leyti lofsöngur til hins nýja musteris tónlistarinnar og hljómsveitarinnar og þess sem hún hefur fram að færa. Verkið er nokkuð í síðrómantískum anda, margslungið, fallegt og tignarlegt og af og til heyrast ágripskennd tilbrigði við klukkustef Akureyrarkirkju,“ sagði Ívar Aðalsteinsson, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, eftir hátíðartónleikana.
- Hafliði Hallgrímsson hefur komið við sögu í einu TÓNDÆMI hér á akureyri.net til þessa:
„Pabbi, strákunum finnst þú í góðu lagi!“
Meira um Hafliða Hallgrímsson síðar