Fara í efni
Menning

Vildu bara hittast, spila og skemmta sjálfum sér

Upprunalegu Hvanndalsbræðurnir á „Lopapeysutónleikum“ á Græna hattinum árið 2010. Frá vinstri, Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, Valur Freyr Halldórsson og Sumarliði Helgason. Myndir: Skapti Hallgrímsson

TÓNDÆMI – 42

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net hefur frá því í nóvember 2024 rifjað upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast á miðvikudögum._ _ _


Hljómsveitin Hvanndalsbræður er vel þekkt á landsvísu, fimm eða sex manna sveit – eftir því hvernig á það er litið – en í upphafi voru meðlimir aðeins þrír og yfirbragð allt annað en síðar varð. Tveir stofnendanna leika með hljómsveitinni í dag.

Það var haustið 2002 sem Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, Valur Freyr Halldórsson og Sumarliði Helgason ákváðu að stofna hljómsveit, nánast eingöngu til hittast reglulega, spila á hljóðfærin sín í æfingahúsnæði og skemmta sjálfum sér, eins og þeir sögðu í viðtali við ofanritaðan fyrir nokkrum árum. Þeir sögðu þá að hvorki hefði staðið til að spila mikið opinberlega né ætlast til þess að aðrir hefðu ánægju af því að hlusta á tónlistina! Til að tryggja sem best að þetta plan héldist var valið versta nafnið af nokkrum á hljómsveitina, eins og þeir orða það: Hvanndalsbræður, og að hljómsveitabúningurinn yrði lopapeysur og flókahattar. Svo skyldi sungið um íslensku sveitina í þjóðlagapönkstíl. „Þetta þótti okkur ávísun á leiðindi,“ sagði Sumarliði – Summi Hvanndal.

Stofnstaðurinn friðaður

„Hugmyndina fengum við í ölæði í Hafnarstræti 107b, húsi sem stendur í Skátagilinu á Akureyri. Húsið var byggt fyrir árið 1918 og er þess vegna friðað og því mun stofnstaður hljómsveitarinnar haldast óhreyfður um ókomna tíð, eins og eðlilegt er!“ sagði Rögnvaldur Bragi á sínum tíma.

Eftir að hljómsveitin hafði samið töluvert af efni og æft stíft, var haldið í hljóðver á Suðureyri við Súgandafjörð, þar sem Vernharður Jósefsson, einn meðlima hljómsveitarinnar Geirfuglanna, var við stjórnvölinn. Þeir segja ekki hafa verið í þeirra anda að taka upp á hefðbundnum stað. Á plötunni, Út úr kú, eru meðal annars lögin Svarfdælskir bændur, Frostaveturinn mikli og þeirra eigin útgáfa af Maístjörnunni. Platan kom út 2003 og var gefin út í 500 eintökum sem seldust upp.

Ýtti á REC og fór svo í vinnuna... 

„Það var ekki haft mikið fyrir upptökunum,“ segir Sumarliði. „Vernharð stillti upp og sagði: Strákar, ég þarf að fara í vinnuna en ég ýti á REC og þið bara spilið plötuna tvisvar í gegn! Þetta tókst allt betur en menn þorðu að vona og platan var að mestu tekin upp og hljóðblönduð á einni helgi.“

Lög af plötunni urðu býsna vinsæl og voru töluvert leikin í útvarpi, aðallega á Rás 2. „Síminn fór að hringja, öllum að óvörum.“

Fljótlega var tekin upp önnur plata og hljómsveitarmeðlimum fjölgaði smám saman. Meira um það síðar.

    • Meðfylgjandi myndir eru frá tónleikum sem stofnendurnir héldu á Græna hattinum haustið 2010, í tilefni átta ára afmælis hljómsveitarinnar.
    • Klæðnaður þremenninganna á afmælistónleikunum var eins og á upphafsárunum, eins og sjá má, og léttleikinn allsráðandi eins og gjarnan þegar Rögnvaldur Bragi – „Rögnvaldur gáfaði“ – á í hlut.
    • „Þeir fóru á kostum á tónleikunum. Rögnvaldur með uppistand á milli laga og svo voru dregnir út happdrættisvinningar og boðið upp á föndurhorn. Rögnvaldur sýndi m.a. hvernig hægt er að búa til fótanuddtæki fyrir 265 krónur!“ sagði í Morgunblaðinu. Á myndinni að neðan er Rögnvaldur einmitt að föndra fótanuddtæki.