Fara í efni
Íþróttir

45 ár síðan Þórsarar eignuðust grasvöll

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 99

Vinna er langt komin við að leggja gervigras á Ásinn, knattspyrnuvöll austast á svæði Íþróttafélagins Þórs í Glerárhverfi. Þetta er fyrsta gervigras sem lagt er utandyra á Þórssvæðinu og verður heimavöllur karlaliðs Þórs og kvennaliðs Þórs/KA á næstunni, líklega þar til einhvers konar gervigras verður lagt á núverandi aðal keppnisvöllinn á svæðinu.

Gaman er að rifja upp á þessum tímamótum að fyrir hálfum mánuði voru 45 ár síðan Þórsarar tóku fyrsta grasvöll félagsins í notkun og er gamla íþróttamyndin sem hér birtist tekin þann dag.

Það var sunnudaginn 21. september árið 1980 að haldin var mikil hátíð þegar grasvöllur Þórs var formlega tekinn í notkun. Hann var á sama stað og núverandi grasvöllur, sem gerður var 2009 þegar svæðinu var breytt mikið í aðdraganda Landsmóts Ungmennafélags Íslands; þá hafði verið byggð áhorfendastúka og lagðar hlaupabrautir.

Meðal atriða á þessum mikla hátíðisdegi í september 1980 var leikur knattspyrnuliðs Þórs það ár og liðs Þórsara sem höfðu verið í eldlínunni 1970. Fyrstu spyrnuna tók Hallfreð Sigtryggsson, sem var einn stofnenda félagsins 65 árum fyrr. Hann er lengst til vinstri á myndinni, þá Magnús Jónatansson fyrirliði 1970-liðsins, Kjartan Tómasson línuvörður, Rafn Hjaltalín dómari, Árni Jakob Stefánsson fyrirliði Þórs 1980 og Þóroddur Hjaltalín línuvörður; aðeins sést glitta í Þórodd á bak við Árna.