Fara í efni
Fréttir

Vélfag: Reynir hættir sem framkvæmdastjóri

Reynir B. Eiríksson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Vélfags. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Vélfag þróar og framleiðir vélar til fiskvinnslu.

„Bjarmi A. Sigurgarðarsson, annar af stofnendum og einn af eigendum Vélfags, tekur við stöðunni þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Reynir mun vera stjórnendum innan handar til að tryggja örugga samfellu í yfirfærslu verkefna innan félagsins,“ segir í tilkynningunni.

„Fyrir hönd Vélfags þakka ég Reyni fyrir mikilvægt framlag hans í framþróun og vexti félagsins að undanförnu og óska honum alls hins besta á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Bjarma.

Reynir kveðst ganga sáttur frá borði. „Tíminn hjá Vélfagi hefur verið mjög ánægjulegur. Ég var ráðinn til að vinna ákveðið verkefni sem ég tel hafa gengið sérlega vel og fyrirtækið er orðið afar öflugt,“ segir hann við Akureyri.net. Sterkur grunnur hefur verið lagður en ég tel rétt að maður með öðruvísi reynslu en ég bý yfir taki við stjórnartaumunum áður en næstu skref verða stigin,“ segir Reynir.

Vélfag var stofnað árið 1995 á Ólafsfirði og er nú bæði með starfsemi þar og á Akureyri. Norebo, stærsta útgerðarfélag Rússlands og eitt það stærsta í heimi, eignaðist meirihluta í félaginu fyrir nokkrum misserum en stofnendurnir, hjónin Bjarmi og Ólöf Ýr Lárusdóttir, eiga enn hlut í félaginu.

Reynir B. Eiríksson er annar eigenda Eigin herra ehf, útgáfufélags Akureyri.net.