Fréttir
Öllum starfsmönnum Vélfags sagt upp
27.11.2025 kl. 12:30
Fáni Vélfags felldur. Mynd: Vélfag.
Stjórn Vélfags hefur tilkynnt um hópuppsögn allra starfsmanna fyrirtækisins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt var rétt í þessu á miðlum fyrirtækisins að loknum starfsmannafundi sem haldinn var í morgun.
Þegar mest var voru starsfmenn Vélfags á fjórða tug. Níu var sagt upp fyrr á þessu ári og núna starfa þar um eða yfir 20 manns.
Yfirlýsing Vélfags er svohljóðandi:
Vélfag ehf. hefur í dag tekið þá þungbæru ákvörðun að ráðast í hópuppsögn allra starfsmanna félagsins. Ákvörðunin er tekin vegna þess að rekstrarforsendur fyrirtækisins hafa algerlega brostið í kjölfar aðgerða utanríkisráðuneytisins og Arion banka, sem hafa gert félaginu ómögulegt að halda úti eðlilegri starfsemi.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá skýrleika, leiðréttingar og jafnræði í meðferð málsins hefur staðan ekki lagast. Reikningar félagsins hafa verið frystir og daglegur rekstur þar með stöðvaður. Sökum þess hefur fyrirtækið verið í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum.
Það er mikilvægt að undirstrika að hópuppsögn er neyðarúrræði, ekki stefnumarkandi ákvörðun. Vélfag mun halda áfram að vinna málið af fullri festu fyrir dómstólum og tryggja að réttur félagsins og hluthafa verði virtur.
Við viljum sérstaklega þakka starfsmönnum fyrir ómetanlegt framlag, tryggð og seiglu á undangengnum mánuðum og á undanförnum 30 árum. Starfsfólk Vélfags hefur sýnt ótrúlega fagmennsku við mjög erfiðar aðstæður og fyrirtækið er einstaklega stolt af sínu fólki. Án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.
Við munum áfram leitast við að halda fyrirtækinu lifandi meðan málaferli standa yfir og tryggja að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki, birgjum og þjónustuaðilum. Við kunnum innilegar þakkir fyrir þolinmæðina og traustið. Það er ómetanlegt. Frekari upplýsingar verða birtar eftir því sem framvindan skýrist.