Fara í efni
Fréttir

Dómurinn vekur áleitnar spurningar

Vélfag er ósammála niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli félagsins og aðaleiganda þess, Ivans Kaufmann, gegn íslenska ríkinu og mun áfrýja málinu til Landsréttar. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum þeirra í Héraðsdómi, eins og áður hefur verið greint frá.
 
Fyrirtækið sendi frá sér yfirlýsingu nú síðdegis þar sem niðurstaða Héraðsdóms er véfengd og tilkynnt um áfrýjunina. Í yfirlýsingunni eru settar fram alvarlegar efasemdir um lögmæti, málsmeðferð, réttarfarslegt jafnræði og hlutverkaskiptingu milli opinberra aðila og einkafyrirtækja í ljósi þess að framkvæmd þvingunaraðgerða gagnvart íslensku fyrirtæki virðist hafa verið framseld til einkarekins viðskiptabanka.
 
Í yfirlýsingu Vélfags segir:
 
Fyrirtækið mun halda áfram að vinna málið af fullri festu og tryggja að réttur þess verði virtur á öllum stigum málsmeðferðar. Málið vekur upp áleitnar spurningar um valdheimildir og framkvæmd íslenskra stjórnvalda á settum lögum. Það er afar óvenjulegt, og að okkar bestu vitund fordæmalaust, að framkvæmd þvingunaraðgerða gagnvart íslensku fyrirtæki virðist hafa verið framseld til Arion banka, einkarekins viðskiptabanka.
 
Slík ráðstöfun hlýtur jafnframt að vekja upp spurningar um lögmæti, málsmeðferð, réttarfarslegt jafnræði og hlutverkaskiptingu milli opinberra aðila og einkafyrirtækja. Þessar spurningar verða lykilþættir í áframhaldandi lögfræðilegu mati okkar þegar málið fer áfram í réttarkerfinu.
 
Niðurstaðan kemur á óvart 
 
„Niðurstaðan kemur Vélfagi á óvart,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags. „Félagið telur að það gangi ekki upp að í lögum sé lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki að frysta bankareikninga og að svo skuli sá, sem sætir frystingu, þurfa að beina kröfu um afléttingu til viðkomandi fjármálafyrirtækis. Fjármálafyrirtækið er ekki bundið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og hefur þvertekið fyrir að það hafi hlutverk við afléttingu frystingarinnar. Höfði félagið mál á hendur fjármálafyrirtækinu er jafnframt ljóst að málið fengi ekki flýtimeðferð og gæti tekið tvö ár í hið minnsta,“ segir Sigurður.
 
Gestur Gunnarsson segir umbjóðanda sinn, Ivan Kaufmann, hafa sætt fordæmalausum og órökstuddum ásökunum og aðdróttunum.  „Niðurstaðan veldur umbjóðanda mínum verulegum vonbrigðum og er að mati hans röng. Hann hyggst láta reyna á áfrýjun nýuppkveðins dóms, ekki síst í því skyni að hreinsa mannorð sitt af þeim fordæmalausu og órökstuddu ásökunum og aðdróttunum sem hann hefur setið undir af hálfu íslenskra stjórnvalda og fjármálafyrirtækja,“ segir Gestur.