Fara í efni
Fréttir

Fimm handteknir í rannsókn á Vélfagi

Fáni Vélfags var dreginn í hálfa stöng daginn sem stjórn Vélfags tilkynnti um hópuppsögn allra starfsmanna fyrirtækisins seint í nóvember. Mynd: Vélfag.

Fimm voru handteknir í dag vegna rannsóknar Héraðssaksóknara á starfsemi tæknifyrirtækisins Vélfags, bæði starfsmenn og stjórnarmenn fyrirtækisins. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum, m.a. í höfuðstöðvunum á Akureyri. Fyrr í dag kom fram að stjórnarformaður Vélfags hefði verið handtekinn og hefði réttarstöðu sakbornings.

Vísir hélt því fram í dag að lykilstjórnendur hefðu unnið að því að stofna nýtt félag til að halda starfseminni áfram. Haft er eftir starfsmanni Vélfags sem ekki vildi láta nafns síns getið, að „Alfreð [Tulinius, stjórnarformaður], Silfá Huld Bjarmadóttir, markaðsstjóri Vélfags og dóttir stofnenda fyrirtækisins, og Elfar Stefánsson, eiginmaður Silfár og framleiðslustjóri Vélfags, hafi unnið að því á bak við tjöldin að stofna nýtt félag til að halda starfseminni áfram.“

„Lager og tæki fyrirtækisins ættu þau að eignast fyrir „slikk“ með leyfi Kaufmann,“ segir Vísir. Ivan Kaufmann er meirihlutaeigandi Vélfags.

Vísir hefur einnig eftir heimildarmanni sínum að tölvur með teikningum, sem eru hugverk Vélfags, hefðu verið fjar­lægðar úr húsnæði fyrirtækisins um tíma, eftir að starfsemin var stöðvuð og starfsmönnum sagt upp í nóvember.

Frétt Vísis: Unnu að því að stofna „Vélfag 2.0“ og tölvur með teikningum fjar­lægðar