Fara í efni
Fréttir

Vegagerðin hyggst reka Hríseyjarferjuna sjálf

Vegagerðin hefur tilkynnt að frá og með 1. janúar 2024 muni stofnunin sjá um rekstur ferjunnar Sævars sem siglir milli Árskógssands og Hríseyjar. 

Vegagerðin mun reka ferjuna undir nafni Almenningssamgangna ehf., einkahlutafélags sem er alfarið í eigu stofnunarinnar. Almenningssamgöngur ehf. reka einnig Grímseyjarferjuna Sæfara sem siglir frá Dalvík til Grímseyjar auk þess að sigla til Hríseyjar tvisvar í viku.

Þetta er niðurstaðan eftir að fyrri ákvörðun Vegagerðarinnar eftir útboð á rekstri ferjunnar var felld úr gildi af kærunefnd útboðsmála. Þrjú tilboð bárust þegar Vegagerðin bauð út rekstur ferjunnar í október í fyrra og voru tilboð opnuð 1. desember 2022. Ákveðið var að taka tilboði Eysteins Þóris Yngvasonar, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags. Kostnaðaráætlun var 347,8 milljónir króna, Eysteinn Þórir Yngvason bauð 296,6 milljónir kr., Ferry ehf. bauð 489 milljónir kr. og Andey ehf., sem hafði rekið ferjuna áður, bauð 534,3 milljónir kr. 

Vegagerðin samdi við Eystein Þóri, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, um rekstur ferjunnar út árið 2025, en hinir bjóðendurnir tveir kærðu ákvörðunina til kærunefndar útboðsmála sem felldi ákvörðunina úr gildi undir lok árs 2022. Þá var samið til bráðabirgða við Andey ehf. um áframhaldandi rekstur ferjunnar, fyrst út marsmánuð á þessu ári og síðan framlengt út árið 2023.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar kemur fram að öllum áhafnarmeðlimum ferjunnar hafi verið boðið að halda störfum sínum áfram og að nú hafi verið samið við áhöfn um áframhaldandi vinnu um borð. Siglingaáætlun ferjunnar verður óbreytt frá því sem verið hefur og mun ferjan sigla allt að níu ferðir á dag en heimahöfn ferjunnar er í Hrísey.

Þá segir að fyrirkomulag á miðasölu verði fyrst um sinn með sama hætti og áður, það er að miðar verða seldir um borð í ferjunni. Unnið er að því að setja upp bókunarkerfi þar sem hægt verður að bóka ferðir fram í tímann. Þegar það er tilbúið verður hægt að bóka ferðir á heimasíðu Vegagerðarinnar svipað og er í boði í dag fyrir ferjuna til Grímseyjar. Á heimasíðu Vegagerðarinnar verða birtar helstu upplýsingar á borð við áætlun ferjunnar, verðskrá og fleira.