Fara í efni
Fréttir

Danshátíðin í Hrísey í sjötta sinn um helgina

Rúnar Þór og hljómsveit á Danshátíðinni í Hrísey 2024. Rúnar Þór mætir á hátíðina í ár eins og allar hinar og mun m.a. fara yfir 40 ára útgáfuferil sinn. Mynd: akureyri.is

Danshátíðin í Hrísey verður haldin í sjötta sinn núna um helgina. Hátíðin fer fram í félagsheimilinu Sæborg og hefst annað kvöld, föstudagskvöld, með tónleikum Rúnars Þórs, sem hefur verið með á hátíðinni frá upphafi. Að þeim loknum verður skellt í dansleik með Stúlla og Tóta frá Siglufirði og á laugardaginn verður dagskrá frá kl. 14 til miðnættis.

Tónleikar Rúnars Þórs á föstudagskvöldinu hefjast kl. 20 og þar mun Rúnar Þór fara yfir 40 ára útgáfuferil sinn. Leynigestur skýtur upp kollinum að auki. Dansleikurinn hefst síðan kl. 21:30.

Á laugardaginn kl. 14 verður dansnámskeið í Sæborg, sem Sólrún Björk Valdimarsdóttir stjórnar. Þar verður m.a. línudans og sænskt bugg á boðstólum og aðgangur er ókeypis. Kvöldskemmtunin hefst kl. 19:30 með því að Einar Guðmundsson harmonikkuleikari og hljómsveit leika fyrir dansi en kl. 21:30 munu Rúnar Þór og hljómsveitin TRAP taka við og halda uppi fjörinu til miðnættis.

Að auki verður sett upp sölutjald við Sæborg, þar sem fjölbreyttar veitingar verða fáanlegar, auk þess sem spákona verður á staðnum og á laugardagskvöldið kl. 20 verða Gunna og Friðrik með viskísmökkun í tjaldinu.

Í frétt á vef Akureyrarbæjar er vitnað í Ingimar Ragnarsson, forsprakka hátíðarinnar, sem fékk hugmyndina þegar hann sá sjónvarpsþátt um danshátíð í Svíþjóð. Ingimar segir að vinsældir hátíðarinnar fari sífellt vaxandi og m.a. sé von á 50 manna hópi frá Reykjavík. „Líklega er orðið erfitt að fá gistipláss í Hrísey þessa helgi, en þó má alltaf reyna,“ segir Ingimar í fréttinni.

Upplýsingar um ferðir Hríseyjarferjunnar Sævars og aðrar upplýsingar um Hrísey er að finna á hrisey.is.