Fara í efni
Fréttir

Ákvörðun felld úr gildi – tvær milljónir í málskostnað

Ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Eystein Þóri Yngvason á grundvelli tilboðs hans, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, í rekstur Hríseyjarferjunnar er felld úr gildi með úrskurði kærunefndar útboðsmála sem birtur var fyrir helgi. Andey ehf. og Ferry ehf. lögðu bæði fram kæru til kærunefndar útboðsmála í desember í fyrra.

Kærunefndin úrskurðar jafnframt að Vegagerðin skuli greiða eina milljón króna í málskostnað ásamt virðisaukaskatti til hvors kæranda, Ferry ehf. og Andeyjar ehf., en að Vegagerðin sé aðeins skaðabótaskyld gagnvart öðru þeirra, Ferry ehf.

Frávik frá útboðsgögnum

Í útboðslýsingu var meðal annars gerð sú krafa að eigið fé bjóðenda væri jákvætt og skyldi sýnt fram á það með því að leggja fram ársreikninga fyrir árin 2020 og 2021.

Þar sem Eysteinn Þórir hafði ekki stofnað einkahlutafélagið lagði Vegagerðin til grundvallar persónuleg skattframtöl hans, en þar kom að hann ætti meiri eignir en skuldir og því væri eigið fé hans jákvætt. Kærunefndin telur að sú ákvörðun Vegagerðarinnar feli í sér frávik frá útboðsgögnum en Vegagerðin hafði ekki breytt útboðsgögnum þannig að kveðið væri á um með hvaða hætti mat yrði lagt á fjárhagslegt hæfi einstaklinga.

Niðurstaða kærunefndar er því að tilboð Eysteins Þóris hafi ekki verið lagt fram í samræmi við útboðsskilmála og væri því ógilt og óaðgengilegt. Vegagerðinni hefði því borið að vísa því frá. Úrskurðarorð kærunefndarinnar er því að ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Eystein Þóri Yngvason fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags sé felld úr gildi.

Skaðabótaskyld gagnvart öðru fyrirtækinu

Kærunefndin úrskurðar jafnframt að Vegagerðin sé skaðabótaskyld gagnvart Ferry ehf. vegna þátttöku í útboðinu, en kröfu Ferry ehf. um að kærunefndin samþykki tilboð fyrirtækisins sem lægsta tilboð í rekstur ferjunnar og gangi til samninga við það er vísað frá.

Hvað kæru Andeyjar varðar eru forsendur og niðurstaða sú sama, að fella úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar um að velja tilboð Eysteins Þóris, en aftur á móti telur nefndin Vegagerðina ekki skaðabótaskylda gagnvart Andey ehf. þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að félagið hefði átt raunhæfa möguleika á að vera valið af Vegagerðinni.

Vegagerðinni er gert að greiða hvoru fyrirtæki eina milljón króna að meðtöldum virðisaukaskatti í málskostnað.

Úrskurðina má finna á vef stjórnarráðsins.

Samið við Andey út árið 2023

Í framhaldi af því að útboðið var kært ákvað Vegagerðin að gera skammtímasamning við Andey ehf., sem hafði verið með rekstur ferjunnar undanfarin ár, til að ekki yrði þjónustufall í siglingum milli Hríseyjar og Árskógssands á meðan kæruferlið stæði yfir. Andey ehf. var með samning við Vegagerðina um rekstur ferjunnar út árið 2022. Fyrst var samið til bráðabirgða við Andey ehf. út mars og svo framlengt út árið 2023.