Hríseyjarbúðin fær þrjár milljónir í styrk
Hríseyjarbúðin er ein sex verslana á landsbyggðinni sem fá verkefnastyrki fyrir árið 2026 og fær rekstrarstyrk upp á þrjár milljónir króna. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrkina og að þessu sinni var átján milljónum kr. úthlutað til verslananna sex en umsóknir voru tíu talsins.
Í frétt á vef stjórnarráðsins segir að markmiðið með styrkjunum sé að styðja við dagvöruverslanir í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum, til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Styrkirnir eru ýmist veittir sem rekstrarstyrkir eða til endurbóta eða sjálfvirknivæðingar. Hríseyjarbúðin hlaut einmitt 2,5 milljóna króna styrk fyrir árið 2025 til endurbóta og sjálfvirknivæðingar.
Ásrún Ýr Gestsdóttir er verslunarstjóri í Hríseyjarbúðinni og hún segir að styrkir á borð við þennan séu mjög mikilvægir fyrir verslunina. „Það er flókið að reka verslun á litlum stað og þarf ekki mjög mikið til svo að reksturinn detti „vitlausum megin við núllið“. Búðin er í eigu Hríseyinga og er ekki rekin í því skyni að skila miklum hagnaði og greiða út arð. Ef vel árar á það að skila sér í vöruverði og þjónustuaukningu. Ef það líða svo einhver ár þar sem við erum bara rétt á núllinu, þá kemur svona styrkur sér gríðarlega vel til þess að byggja upp og gera betur,“ segir Ásrún Ýr í spjalli við akureyri.net.
Sumarvertíðin er afar mikilvæg fyrir reksturinn
Ásrún Ýr bendir á að mikill munur sé á rekstraraðstæðum eftir árstíma og afkoma ársins byggist að miklu leyti á því að sumarið sé gott. „Við svona tórum veturinn betur ef sumarið var gott. Hrísey er vinsæll ferðamannastaður og á sumrin er líf og fjör í búðinni. Opið alla daga vikunnar og vöruúrval aukið. Svo þarf maður að sníða sér stakk eftir vexti yfir vetrarmánuðina þegar færri eru í eyjunni. Þá er gott að vita hverjir vilja léttmjólk framyfir nýmjólk og hvenær viðkomandi bregður sér af bæ! Ef léttmjólkur-eyjarskegginn skellir sér í mánuð til Tene, þá þarf að gera breytingar á innkaupum í búðinni,“ segir Ásrún Ýr glettnislega.
Þó að afgreiðslutíminn í versluninni sé takmarkaðri á veturna geta eyjarskeggjar og gestir gengið að helstu nauðsynjavörum vísum í sjálfsafgreiðsluskúr við búðina, sem er opinn allan sólarhringinn. Svo er rekin póstafgreiðsla í versluninni á afgreiðslutíma hennar, auk þess sem hægt er að fá sendingar frá Vínbúðinni afhentar í Hríseyjarbúðinni.